Reyna að láta vita fyrirfram um stoppin

„Sjoppur landsins eru ekki reknar á salernunum einum saman“, segir …
„Sjoppur landsins eru ekki reknar á salernunum einum saman“, segir á miða í söluskála úti á landi. Ljósmyndari/Heiðar Lind Hansson

Aðstöðugjald við salerni söluskála í kringum landið hefur á ný ratað í umræðuna. eins og greint var frá hér á vefnum í gær. Segist rekstraraðili söluskálans Baulu í Borgarfirði orðinn þreyttur á að rútur stoppi við skálann til þess eins að hleypa farþegum á salerni, óháð því hvort viðkomandi versli á staðnum eða ekki.

Mbl.is hafði samband við nokkur rútufyrirtæki og ferðaskrifstofur sem bjóða upp á ferðir um landið og spurðist fyrir um málið.

Reynt að láta vita hvar stoppað fyrirfram

Samkvæmt viðmælendum mbl.is sögðust flestir reyna að búa svo um hnútana að búið væri að láta söluskála eða aðra ferðaþjónustuaðila á ákveðnu svæði vita að rúta muni stöðva hjá þeim, standi það til.

„Við förum ekki í skipulagðar áætlunarferðir og stoppum einhvers staðar án þess að vera búin að ræða það við viðkomandi fyrst,“ sagði Þórarinn Þór, sölu- og markaðsstjóri Kynnisferða. „Það er þá ekki nema í algjörum undantekningartilvikum.“

Enginn viðmælenda mbl.is kannaðist við að sérstök salernisstopp í einum söluskála fremur en öðrum væri sett inn í ferðaáætlanir hópa á þeirra vegum. Bar öllum saman um að í flestum tilvikum væri fylgt ákveðinni ferðaáætlun þar sem miðað væri við að stoppa við staði þar sem eitthvað væri að sjá og salernisaðstaða væri einnig til staðar. Að öðru leyti væri fararstjórum heimilt að ákveða hvar stoppað væri, mætu þeir það svo að slíkra stoppa væri þörf, sem eðli málsins samkvæmt kæmi reglulega til. Gæfist ferðamönnum þá færi á að versla á viðkomandi stað sem og að nýta salernisaðstöðu.

Almennt virtust menn sammála um að staðir og söluskálar um landið kynnu að meta að rúturnar stoppuðu hjá þeim.

Þörf umræða - vísir að aðstöðugjaldi til staðar

Í vissum tilfellum eru ferðafyrirtæki þegar farin að greiða fyrir aðgang hópa á þeirra vegum að aðstöðu. Eins og t.d. í tilfelli Kynnisferða. „Þegar við förum inn á hálendið, eins og t.d. inn í Landmannalaugar, greiðum við svokallað „tæknistopp“-gjald fyrir hópa, sem fólk greiðir sjálft í áætlunarferðunum. Þetta gjald er greitt rekstraraðila fyrir viðhald og hreingerningu á staðnum,“ sagði Þórarinn. „Í áætlanakerfinu er hins vegar um að ræða samninga sem hafa verið í gildi árum saman við vissa söluskála við þjóðveginn. Við tökum hjá þeim eldsneyti og farþegar versla þá hjá þeim eða nota þá salernisaðstöðu ef á þarf að halda,“ bætti hann við.

Allir voru viðmælendur mbl.is sammála um að umræðan væri ekki ný af nálinni og kæmi reglulega upp.

„Ég hef ekki fengið beint til mín neina sérstaka kvörtun varðandi þetta efni,“ sagði Kristján M. Baldursson, framkvæmdastjóri TREX-Hópferðamiðstöðvarinnar sem ekur fyrir fjölda ferðaskrifstofa um landið. „Grundvallaratriði í ferðum um landið er hins vegar auðvitað salernisaðstaða. Þar sem hún er fyrir hendi nýta hópar það. En sé verið að tala um að fólk borgi fyrir þessa þjónustu þar sem hún er, þá finnst mér alveg liggja beint við að það geri það, eða kaupi eitthvað á staðnum nýti það sér aðstöðuna.“

Víst er að umræðan er þörf, ekki síst nú þegar unnið er að því að auka umferð ferðamanna um landið allan ársins hring, einnig í kringum jól og áramót þegar salernisaðstaða við ferðamannastaði víða um land vill vera lokuð.

Nefndi starfsmaður ferðaskrifstofu, sem vildi ekki láta nafns síns getið, að athugandi væri í þessu samhengi að líta til dæmis til Þýskalands þar sem víða í söluskálum við hraðbrautir væri rukkað fyrir afnot af salernum en kvittun veitti samsvarandi afslátt verslaði viðkomandi einnig í skálanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert