Steinunn á Sjöundá fær legstein

Kristinn Þór Egilsson hafði frumkvæði að gerð legsteinsins.
Kristinn Þór Egilsson hafði frumkvæði að gerð legsteinsins. mbl.is/Árni Sæberg

Afkomendur Steinunnar Sveinsdóttur frá Sjöundá ætla að komið fyrir legsteini á leiði hennar en gröf hennar hefur verið illa merkt frá því bein hennar voru flutt í Suðurgötukirkjugarðinn fyrir um hundrað árum.

Morðin á Sjöundará eru einn frægasti ástarharmleikur Íslandssögunnar. Rúmlega 200 ár eru síðan atburðirnir áttu sér stað.

„Ég fór að kynna mér þetta mál fyrir ekkert mjög löngu. Mér hefur alltaf þótt það furðulegt hvers vegna það var ekki komin grafskrift yfir leiði Steinunnar í Suðurgötukirkjugarði. Ég vildi búa til skjöld sem færi á leiðið hennar sem segði aðeins frá henni sjálfri og staðnum sem hún bjó á er þessir atburðir áttu sér stað. Ég ákvað að taka stein úr bænum á Sjöundá til að festa skjöldinn á. Síðan fór ég á Rauðasand, sem er rétt hjá bænum, og náði í sand til að setja á leiðið,“ segir Kristinn Þór Egilsson, afkomandi Steinunnar, en hann stendur á bak við gerð skjaldarins.

„Faðir minn, Egill, átti móður sem hét Ólafía. Faðir hennar hét Egill og var Árnason og þessi Árni var sonur Guðrúnar en hún var elsta barn Steinunnar. Ég fékk allar þessar heimildir varðandi börn Guðrúnar, ártöl og annað hjá deCODE. Þessar heimildir eru því eins nákvæmar og hægt er. Steinunn er í dag komin með vel yfir tvö þúsund afkomendur. Afkomendur Bjarna eru um 1.800,“ segir Kristinn ennfremur. 

Morðin á Sjöundá

Atburðirnir áttu sér stað árið 1802 þegar Jón Þorgrímsson og Guðrún Egilsdóttir voru að öllum líkindum myrt á bænum Sjöundá á Rauðasandi. Spjótin beindust fljótt að Steinunni Sveinsdóttur, eiginkonu Jóns, og Bjarna Bjarnasyni, eiginmanni Guðrúnar. Hjónin höfðu deilt jörð og búið í sama húsi í einhvern tíma ásamt börnum sínum en sögusagnir fóru af meintu ástarsambandi Steinunnar og Bjarna. 

„Við getum kannski sagt að þetta sé ástarharmleikur sem gerist á lokaskeiði þessa gamla íslenska bændasamfélags þar sem skilnaðir voru mögulegir en erfiðir. Fólk bjó í mikilli nálægð. Þessi tvö pör, annars vegar Steinunn og Jón og hinsvegar Bjarni og Guðrún, bjuggu til að mynda öll á sama heimilinu. Þú getur rétt ímyndað þér hversu mikil nálægðin er á litlum sveitabæ á þessum tíma og ýmislegt sem hefur getað gerst í slíkum aðstæðum. Það er að öllum líkindum fjöldinn allur af svipuðum sögum sem aldrei hafa komið upp á yfirborðið. Þetta er mjög áhugaverð saga og afkomendur Steinunnar vilja að sagan verði könnuð ennþá nánar, ég held að það sé alveg tilvalið. Þetta er bæði áhugavert út frá félagslegu sjónarmiði, hvernig fólkið bjó, og síðan út frá réttarsögulegu sjónarmiði; hvort málið hafi nokkurn tíman verið sannað og hvort þarna hafi mögulega verið framið einhverskonar réttarmorð,“ segir Guðmundur Hálfdanarson, sagnfræðingur við Háskóla Íslands, en sú saga hefur lengi gengið á meðal manna að Steinunn hafi síðar verið myrt í tukthúsinu á Arnarhóli þar sem hún var látin dúsa.

Var Steinunn sek eða saklaus?

Lík Jóns fannst illa leikið á Rauðasandi skömmu eftir að Guðrún andaðist fremur snögglega. Gefin var út handtökuskipun á Steinunni og Bjarna og þau tekin til yfirheyrslu. Bjarni hélt því fram til að byrja með að Jón hefði fallið fram af kletti en sökum augljósra áverka breytti hann frásögn sinni og tjáði viðstöddum að hann hefði drepið Jón í sjálfsvörn eftir að sá síðarnefndi hefði ráðist á sig. Steinunn á að hafa vitað af þessu og því verið meðsek. Bjarni og Steinunn eiga síðan að hafa reynt að eitra fyrir Guðrúnu en mistekist. Bjarni á þá að hafa kæft hana á meðan Steinunn hélt höndum hennar föstum. Þetta játaði Steinunn þó aldrei.

„Afkomendunum finnst málið nú ekki liggja eins ljóst fyrir og virðist vera, þetta er allt svona frekar í þoku. Hvorugt morðið, ef um morð var að ræða, var sannað að fullu. Það var enginn staðinn að verki og Steinunn játaði til að mynda aldrei aðild að verknuðunum. Hún getur ekki beinlínis verið tengd við morðið á Jóni, ef að það var morð, því að hún var auðvitað þar hvergi nálæg. Þetta kemur upp þarna í byrjun 19. aldar og það sem gerir málið svona þekkt er auðvitað bæði að það var ekkert algengt að svona gerðist en síðan er það saga Gunnars Gunnarssonar, Svartfugl, sem hefur kannski gert málið ódauðlegt. Sú skáldsaga er byggð á sannsögulegum heimildum frá þessu máli. Þetta er náttúrlega ástarsaga sem er að sjálfsögðu alltaf heillandi fyrirbæri, þó svo að um mögulegt morðmál sé að ræða,“ segir Guðmundur.

Andaðist í tukthúsinu á Arnarhóli

Skötuhjúin voru dæmd til pyntinga og lífláts og flutt í tukthúsið á Arnarhóli. Steinunn hafði þá skömmu áður fætt barn þeirra Bjarna en faðirinn hafði ítrekað reynt að flýja fangelsisvistina. Illa tókst að finna böðul til verksins og óskuðu Íslendingar eftir böðli frá Danmörku. Á meðan á þessu stóð strauk Bjarni í enn eitt skiptið en náðist þó fljótt aftur. Dómur var síðan kveðinn upp um að Steinunn og Bjarni yrðu flutt til Noregs þar sem taka átti þau af lífi. Steinunn lést þó áður en að því kom í tukthúsinu og var dysjuð á Skólavörðuholti, þar sem Hallgrímskirkja stendur meðal annars í dag, á reit sem síðar var kallaður Steinkudys en ummerki grafarinnar sáust allt fram á 20. öld. Eins og áður sagði voru bein hennar síðar flutt í Suðurgötukirkjugarðinn. Sama ár, 1805, var Bjarni fluttur til Noregs þar sem hann var pyntaður og tekinn af lífi að fyrirskipan Danakonungs.

„Á þessum tíma voru fangelsi engin sérstök heilsuhæli. Það var til dæmis oft álitið dauðadómur í Evrópu að vera dæmdur í fangelsi. Við getum að minnsta kosti sagt að aðbúnaður Steinunnar í fangelsinu hafi stuðlað að dauða hennar, hvort sem að hún var myrt eða ekki. Fangelsi á Íslandi á þessum tíma voru líka fremur fátíð fyrirbæri, Íslendingar voru ekkert mikið fyrir það að senda fólk í fangelsi. Við vorum meira í því að berja fólk og senda það svo aftur heim því að mönnum þótti dýrt að halda föngum uppi. Í fyrstu var Steinunn dysjuð, ekki sett í vígða mold þar sem hún var álitin vera morðingi og þar með hafa fyrirgert rétti sínum til þess að vera grafin í vígða mold. Hún er svo aftur flutt í kirkjugarðinn um hundrað árum síðar, í Suðurgötukirkjugarð. Í því felst nú ákveðin fyrirgefning getur maður sagt. Gröfin hefur ekki verið með legstein fram að þessu en afkomendur hennar eru nú að vinna að því að breyta því.

Það er vitað að Bjarni var tekinn af lífi í Kristianssand í Noregi. Hann var handar- og hálshöggvinn, líkami hans settur á hjól og steglu og höfuð og hendur á stjaka. Líkinu var þannig misþyrmt og átti sú aðferð að vera mönnum víti til varnaðar. Steinunn og Bjarni áttu eitt barn saman og hún eignaðist það á meðan hún var í varðhaldi. Því skilst mér að hafi farnast vel og af því sé komin mikil og stór ætt. Að minnsta kosti tvær dætur Steinunnar og Jóns komust á legg og af þeim er einnig komin stór ætt. Mér skilst að börn Bjarna og Guðrúnar hafi öll látist voveiflega eftir að hafa strokið úr fóstri ekki löngu eftir að foreldrar þeirra létust,“ segir Guðmundur að lokum.

Skjöldurinn sem mun prýða gröf Steinunnar.
Skjöldurinn sem mun prýða gröf Steinunnar. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina