Jarðskjálfti upp á 4,6 stig

Jarðskjálfti upp á 4,6 stig reið yfir nú um tólfleytið (11:59). Upptök skjálftans eru skammt frá Vífilsfelli, skammt frá skíðasvæðinu í Bláfjöllum. Samkvæmt upplýsingum frá jarðskjálftasviði Veðurstofu Íslands er þetta með stærri skjálftum sem hafa riðið yfir á þessu svæði.

Segir jarðeðlisfræðingur á Veðurstofunni að alltaf sé töluverð skjálftavirkni á Reykjanesinu en engin óeðlileg virkni hafi verið á þessu svæði áður en jarðskjálftinn reið yfir nú um tólf.

Jarðskjálftinn fannst mjög vel á höfuðborgarsvæðinu og víða um Suðurland, meðal annars á Selfossi og í Fljótshlíðinni. Lesandi mbl.is á Selfossi segir að skjálftinn hafi fundist ágætlega þar. „Enginn titringur kom heldur bara eins og létt spark í stólinn hjá manni.“ 

Eins hafa lesendur mbl.is í Vestmannaeyjum, Búðardal, Hveragerði og fleiri stöðum látið vita að þeir hafi fundið greinilega fyrir skjálftanum.

Harpa Vignisdóttir sem býr í Þorlákshöfn fann jarðskjálftann mjög vel þar. Hún sat í sófanum heima hjá sér er jarðskjálftinn reið yfir.  „Það kom eins og smá högg á hann fyrst og síðan titringur. Ljósakrónan í loftinu sveiflaðist lengi eftir að skjálftinn var búinn,“ segir Harpa.

Nokkrir eftirskjálftar hafa fylgt í kjölfar stóra skjálftans

Samkvæmt upplýsingum frá Martin Hensch, jarðskjálftafræðingi á Veðurstofunni, voru upptök skjálftans á 5,8 km dýpi á 64.00107°N 21.59168°W.

Nokkrir eftirskjálftar hafa fylgt í kjölfar stóra skjálftans en þeir eru allir tvö stig eða minna. Grannt er fylgst með jarðhræringunum á jarðskjálftasviði Veðurstofunnar.

Tilkynning frá almannavörnum sem barst klukkan 12:30

„Jarðskjálfti af stærðinni 4,6 átti upptök sín rétt norður af Bláfjallaskála klukkan 11:59 í morgun. Jarðskjálftinn fannst greinilega á höfuðborgarsvæðinu og víðar á Suð-Vesturlandi. Búast má við eftirskjálftum í kjölfar jarðskjálftans.“

Hér er hægt að sjá áhrifasvæði skjálftans

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert