Starfshópur um skattlagningu í ferðaþjónustu

Fjármálaráðherra hefur í samráði við aðila ferðaþjónustunnar stofnað starfshóp um skattlagningu ferðaþjónustugreina og málefni sem henni tengjast. Ráðuneytið hefur eins og kunnugt er kynnt áform um að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu úr 7% í 25,5%.

Ákveðið var að stofna hópinn í framhaldi af fundum sem fjármálaráðuneytið hefur haldið, m.a. með hagsmunaaðilum í ferðaþjónustu. Í fréttatilkynningu frá fjármálaráðuneytinu segir að þessir fundir hafi verið gagnlegir.

Í starfshópinn hafa eftirfarandi verið tilnefndir: Gunnar Tryggvason, formaður, Guðrún Þórdís Guðmundsdóttir, tilnefnd af fjármálaráðherra, Jón Guðmundsson frá ríkisskattstjóra, Erna Hauksdóttir og Kristófer Oliversson frá Samtökum ferðaþjónustunnar, Helga Haraldsdóttir frá iðnaðarráðuneyti og Gunnlaugur Geirsson frá innanríkisráðuneyti.

Starfshópurinn á að skila fjármálaráðherra niðurstöðum sínum og tillögum fyrir lok september. Hópnum er sérstaklega ætlað að fjalla um eftirfarandi:

  • forsendur og áhrif þess að breyta álagningu virðisaukaskatts á gistiþjónustu
  • samkeppnisstöðu og jafnræði greina innan ferðaþjónustunnar í skattalegu tilliti og leyfisveitingar til aðila sem bjóða gistiþjónustu
  • aðgerðir til að koma í veg fyrir undanskot frá skattgreiðslum og til að styrkja stöðu ferðaþjónustunnar

Auk þess hefur ráðuneytið óskað eftir að Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vinni skýrslu um áhrif væntanlegra breytinga á virðisaukaskatti á gistiþjónustu á ríkissjóð, og á ferðaþjónustu. Verður skýrslan kynnt í næstu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert