Lögreglan fái 500 milljónir

Lögreglumönnum hefur fækkað.
Lögreglumönnum hefur fækkað. mbl.is/Eggert Jóhannesson

500 milljóna króna fjárveitingar er þörf til lögregluembætta í landinu til þess að standa undir því að tryggja öryggi borgaranna. Sérstök umræða um skiplagða glæpastarfsemi og stöðu lögreglu fór fram á Alþingi í dag og voru þingmenn bæði stjórnar og stjórnarandstöðu samhljóma um að aðgerða sé þörf.

Fjölskyldur lögreglumanna í hættu

Jón Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokks var málshefjandi en til andsvara var Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra.  Jón vísaði til fréttaflutnings í tengslum við Outlaws málið, þar sem gerðar voru húsleitir hjá mótorhjólasamtökunum vegna gruns um að í bígerð væru árásir á lögreglumenn. „Það er alvarlegt til þess að vita að fjölskyldur lögreglumanna séu fluttar brott af heimilum sínum í öryggisskini,“ sagði Jón.

Jón sagði lögreglumenn um allt land hafa áhyggjur af stöðunni, m.a. vegna fækkunar í lögregluliðinu. Hann sagði algjört skilningsleysi ríkja gagnvart búnaðar- og þjálfunarmálum lögreglu. „Þrátt fyrir að okkur öllum sé ljóst að það þurfi að spara í ríkisrekstri ber okkur einnig skylda til að tryggja öryggi borgaranna,“ sagði Jón og beindi þeim spurningum til innanríkisráðherra hvort tl standi að auka valdheimildir lögreglu og hvort fjölgun lögreglumanna sé í farvatninu.

Ögmundur segir mega gera betur

Ögmundur Jónasson benti á að á tveggja ára tímabili hafi um 100 milljónum króna verið veitt til að efla lögregluna við að takast á við skipulagða brotastarfsemi. „En þótt ég telji að lögreglan sé í stakk búin að takast á við það verkefni þá má betur gera.“Ögmundur sagði ríkislögreglustjóra hafa farið yfir skýrslu norsku lögreglunnar, um árásir Anders Behring Breivik 22. júlí 2011 og í kjölfarið komið með ábendingar um að efla þurfi lögregluna til að takast á við voðaverk af þessu taki með bættum búnaði, fjölgun lögreglumanna og auknum æfingum. 

Ögmundur staðfesti fyrirspurn Jóns um að dregið hafi verið úr útgjöldum til lögreglu sem nemi 2,8 milljörðum á tveggja ára tímabili. Það helgist af þeim vanda sem þjóðin glími við vegna fjárlagahalla ríkisins, en hann sagði teikn á lofti um að „sólin fari hækkandi á hinum efnahagslega himni“. Ögmundur ítrekaði afstöðu sína gegn því að auka valdheimildir lögreglu og sagði ekki standa til að setja á fót sérstaka leyniþjónustu.

Einn með gæslu á svæði á stærð við Ísrael

Björgvin G. Sigurðsson þingmaður Samfylkingar, Tryggvi Herbertsson þingmaður Sjálfstæðisflokks, Siv Friðleifsdóttir þingmaður Framsóknarflokks, Margrét Tryggvadóttir þingmaður Hreyfingarinnar og Bjarkey Gunnarsdóttir þingmaður Vinstri grænna tóku einnig til máls og lýstu öll stuðningi við auknar fjárveitingar til fjölgunar lögreglumönnum, en fram kom að lögreglan þyrfti að fá a.m.k. 500 milljónir fram yfir það sem nú er áætlað í fjárlögum.

Þingmenn vísuðu m.a. í frétt Morgunblaðsins í dag um að sýslumannsembættið á Selfossi sjái fram á að þurfa að segja upp 4 lögreglumönnum. „Það er ljóst hvað lætur undan og það er öryggi borgaranna,“ sagði Tryggvi Þór. „Í Þingeyjarsýslu er einn lögreglumaður á vakt á svæði sem er stærra en sem nemur Ísrael og hluta ef Egyptalandi. Einn maður á vakt, það sér hver maður að þetta gengur ekki upp.“

Siv Friðleifsdóttir tók undir að mikilvægt væri að efla lögregluna enn frekar en hún nýtti jafnframt tækifærið til að minna á að ýmislegt jákvætt hafi gerst og lögregla náð árangri þrátt fyrir þrönga stöðu. T.a.m. sýni afbrotatíðni að þjófnuðum og innbrotum hafi fækkað vegna forgangsröðunar lögreglu auk þess sem íslenska lögreglan sé leiðandi í þróun tækni sem kortleggur hvar flest afbrot eru framin og hvenær. „Þannig að það er margt jákvætt að gerast hjá lögreglu líka.“

Jón Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Jón Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is
Ögmundur Jónasson á Alþingi.
Ögmundur Jónasson á Alþingi. mbl.is/Friðrik Tryggvason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert