Plataður til að hlaupa nakinn

Stjórnarráð Íslands
Stjórnarráð Íslands mbl.is/Ómar Óskarsson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði nýverið för nakins karlmanns er hann hljóp hringinn í kringum Stjórnarráðið. Í ljós kom að stúlkur höfðu platað hann til þess að afklæðast og hlaupa nakinn á grasflötinni enda væri slíkt viðtekin venja á Íslandi.

Á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að eftir að maðurinn hafði hlaupið einhverja hringi í kringum Stjórnarráðið náðu lögreglumenn að hafa hendur í hári hans enda fátt annað að grípa í svo vel færi, að því er segir á Facebook síðu lögreglunnar.

„Þarna var á ferðinni ungur ferðamaður og var hann á sokkunum einum fata. Hann var mjög miður sín er komið var í lögreglubifreiðina og gaf þær skýringar að hann hefði hitt íslenskar stúlkur á bar í borginni. Maðurinn sagði að stúlkurnar hefðu manað hann til að fara úr fötunum og hlaupa um á umræddu grasi, en þær hefðu staðhæft að slíkt væri algeng hefð á Íslandi og af einskærri hjálpsemi hefðu hafi þær boðist til að halda á fötum hans á meðan hann þreytti hlaupið. Þær létu sig hins vegar hverfa í miðju hlaupinu svo ungi ferðamaðurinn var bæði kaldur og úrræðalaus á hlaupum í leit að fötunum.

Var honum komið á lögreglustöðina vafinn teppi en hann átti í erfiðleikum með að framvísa skilríkjum enda veskið í buxunum, sem voru í höndum stúlknanna.
Sagan endaði samt betur á horfðist í fyrstu því að er honum var skilað á hótel sitt, biðu fötin hans í móttökunni en stúlkurnar voru horfnar á braut,“ segir á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert