Vinningshafinn ekki kominn fram

127 milljónir króna er hæsti vinningur sem dreginn hefur verið …
127 milljónir króna er hæsti vinningur sem dreginn hefur verið út á íslenskan lottómiða. mbl.is/Golli

Vinningshafinn heppni sem hreppti í gærkvöldi stærsta lottóvinning Íslandssögunnar hefur enn ekki gefið sig fram við Íslenska getspá. Miðinn var þó keyptur á netinu og reynist því auðvelt að hafa upp á viðkomandi til að láta vita, hafi hann ekki áttað sig á því nú þegar að hann sé orðinn 127 milljónum króna ríkari.

Aðeins einn miði var með allar tölur réttar þegar dregið var í Víkingalottóinu í gær. Þetta er í 22. skiptið sem fyrsti vinningurinn kemur til Íslands en hann hefur aldrei verið hærri. Næsthæsti vinningur Íslandssögunnar í Víkingalottói fór til Akureyrar í mars á síðasta ári og var hann tæplega 108 milljónir.

Nánast jafnhár vinningur kom á miða sem seldur var í Kópavogi í nóvember 2009. Fyrsti vinningurinn sem var hærri en 100 milljónir var seldur á Akureyri í október 2007 og fimmti vinningurinn sem hefur fraið yfir 100 milljónir í Víkingalottói var seldur í Kópavogi í október í fyrra.

Svo mikil aðsókn var á heimasíðu Íslenskrar getspár í gærkvöldi að vefurinn lagðist á hliðina. Má nærri geta að margir sem keypt höfðu miða á netinu hafi viljað kanna hvort vinningurinn hafi fallið þeim í skaut eftir að fréttirnar bárust út.

Íslensk getspá býður öllum þeim sem hljóta stóra vinninga í lottóleikjum eða getraunum upp á ókeypis ráðgjöf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert