„Það á ekki að refsa eldri borgurum“

Eldri borgarar í Reykjavík.
Eldri borgarar í Reykjavík.

Félag eldri borgara í Reykjavík, FEB, krefst þess að lífeyrir aldraðra frá almannatryggingum verði leiðréttur strax til samræmis við kauphækkanir láglaunafólks. FEB krefst þess einnig að sú skerðing á kjörum aldraðra, sem ríkisstjórnin ákvað frá 1. júlí 2009 verði strax afturkölluð.

„Kjararáð hefur afturkallað kauplækkun ráðherra, þingmanna og embættismanna með gildistíma frá  1.október 2011. Ríkisstjórnin verður að veita öldruðum sams konar leiðréttingu,“ segir í ályktun aðalfundar FEB sem haldinn var síðastliðinn föstudag.

„FEB telur að greiðslur úr lífeyrissjóði eigi ekki að skerða lífeyri frá almannatryggingum. Þegar lífeyrissjóðir voru stofnaðir var gert ráð fyrir því, að lífeyrir úr þeim yrði til viðbótar lífeyri frá almannatryggingum og myndi því ekki skerða bætur almannatrygginga,“ segir í ályktuninni 

Þá er þess krafist að frítekjumark vegna greiðslna úr lífeyrissjóði verði strax  hækkað.

„En í næsta áfanga verði skerðing tryggingabóta vegna lífeyrissjóðs afnumin með öllu. Við afturköllun á kjaraskerðingu frá 1. júlí 2009 verður hætt að reikna greiðslur úr lífeyrissjóði með tekjum við útreikning á grunnlífeyri almannatrygginga. Hækka þarf einnig verulega frítekjumark vegna fjármagnstekna og atvinnutekna. Það á ekki að refsa eldri borgurum fyrir að spara eða vinna.“

Lífeyrir verði samkvæmt neyslukönnun Hagstofunnar

FEB telur að  stefna eigi að því að hækka lífeyri aldraðra frá almannatryggingum í áföngum í upphæð sem samsvarar meðaltalsútgjöldum einstaklinga og heimila samkvæmt neyslukönnun Hagstofunnar.

„Samkvæmt síðustu neyslukönnun Hagstofunnar (des. 2012) eru meðaltalsútgjöld einhleypinga 295 þús kr. á mánuði eftir að tekið hefur verið tillit til hækkunar neysluverðs frá því, að könnunin var gerð. Hvorki skattar né afborganir og vextir er  innifalið í tölu Hagstofunnar og lyfjakostnaður vanáætlaður. En hæsti lífeyrir einhleypra ellilífeyrisþega  (framfærsluviðmið- lágmarksframfærslutrygging) frá TR er 180 þús. kr. á  mánuði eftir skatta. Það vantar því  115 þús. kr. á mánuði upp á að  lífeyrir almannatrygginga dugi fyrir neysluútgjöldum þessara einstaklinga. En aðeins mjög lítill hópur eldri borgara nýtur  framfærsluviðmiðs Tryggingastofnunar að fullu. Lífeyrir annarra ellilífeyrisþega frá TR er mikið lægri.“

Endurskoðun kemur ekki í stað kjaraleiðréttingar

Aðalfundurinn bendir á að endurskoðun almannatrygginga komi ekki í stað kjaraleiðréttingar vegna kjaraskerðingar og kjaragliðnunar krepputímans. „Það verður eftir sem áður að leiðrétta kjör aldraðra strax og afturkalla  kjaraskerðinguna frá 1. júlí 2009. Grunnlífeyrir er nú 34 þús. kr. á mánuði. Þeir sem misstu hann 2009 eiga að fá hann aftur nú að öðru óbreyttu.“

Þá mótmælir FEB harðlega hækkun Reykjavíkurborgar á ýmsum þjónustugjöldum aldraðra, til dæmis fyrir mat og á akstri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert