Strætó metur stöðuna næst kl. 15:30

Ekkert skyggni er á höfuðborgarsvæðinu og hefur Strætó hætt akstri.
Ekkert skyggni er á höfuðborgarsvæðinu og hefur Strætó hætt akstri.

„Staðan er því miður ekki góð. Vegagerðin treystir sér ekki til að halda opnum stofnbrautum og við erum algerlega háð þeim. Við munum því taka stöðuna aftur kl. 15:30,“ segir Júlía Þorvaldsdóttir, sviðsstjóri hjá Strætó.

Strætisvagnar hættu að ganga á höfuðborgarsvæðinu fyrir hádegi í dag vegna ófærðar. Ákveðið var að taka stöðuna aftur kl. 13:30, en Júlía segir að það liggi núna fyrir að ekki verði hægt að senda vagnana strax af stað.

„Staðan er þannig núna, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni, að snjóvinnutæki eru föst og því engin leið að senda strætisvagna af stað strax. Það eru allt stopp hjá okkur núna, því miður. Við munum meta stöðuna aftur kl. 15:30,“ segir Júlía.

Farþegum boðið í mat hjá strætó

Þegar strætisvagnar hættu að ganga í morgun voru margir farþegar í vögnunum. Farþegum var ekið í höfuðstöðvar strætó í Reykjavík og boðið í mat.

„Við erum með fullt hús af fólki,“ segir Júlía. „Hér allt fullt af vagnstjórum og farþegum. Síðan vorum við með jeppamann sem sótti bílstjóra sem voru fastir og farþegarnir komu bara með. Við erum búin að vera á haus í mötuneytinu að gefa fólki kaffi og mat.“

Júlía segir að jeppamaðurinn, sem hefur aðstoðað Strætó í morgun, sé nú að skipuleggja að keyra fólk, sem bíður í mötuneytinu, heim til sín. „Annars er fólk hér bara undir teppi og hefur það huggulegt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert