Fæddist í sjúkrabíl í vonskuveðri

Guðrún Sigríður Geirsdóttir og Guðbergur Rafn Ægisson með litla drenginn …
Guðrún Sigríður Geirsdóttir og Guðbergur Rafn Ægisson með litla drenginn á Sjúkrahúsinu á Akureyri í morgun. Skapti Hallgrímsson

Guðrún Sigríður Geirsdóttir og Guðbergur Rafn Ægisson, íbúar á Húsavík, munu líklega seint gleyma nóttinni sem leið. Í gærkvöldi var komið að fæðingu sonar þeirra og þurfti Guðrún að komast á fæðingadeildina á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Það var þó ekki hlaupið að því vegna mikillar ófærðar í Víkurskarði. Þar að auki sátu tvær stórar bifreiðar fastar á veginum og því var ekki hægt að ryðja hann. Gripið var til þess ráðs að senda snjóruðningstæki á undan sjúkrabílnum til að ryðja gömlu leiðina yfir Dalsmynni í Fnjóskadal.  

Aðspurður segir Guðbergur að honum hafi vissulega ekki staðið á sama í þessum óþægilegu aðstæðum. „Maður hefði alveg þegið að göngin væru komin“ segir hann. Slæmt skyggni var á leiðinni yfir Dalsmynnið og leiðinlegt veður. „Við sáum ekkert hvar við vorum vegna blindhríðar,“ segir Guðbergur. „Við þurftum oft að stoppa bílinn vegna þess að við sáum ekki á milli stika“.

Drengurinn vildi greinilega ekki missa af þessari viðburðarríku ferð og kom í heiminn í sjúkrabílnum á miðri leið. „Við vorum bara einhversstaðar í Dalsmynninu þegar barnið fæddist,“ segir Guðbergur og bætir við að allt hafi þó gengið að óskum. „Maður sá að þetta gekk vel og þá hugsaði maður ekkert mikið um að maður væri staddur út í óbyggðum,“ segir hann.

Spurning um hvort hann fær nafn björgunarsveitarinnar

Að fæðingunni lokinni var haldið áfram inn á Akureyri og dvelur fjölskyldan nú á fæðingadeildinni. Öllum heilsast vel eftir ævintýri næturinnar. „Þetta mun líklega seint gleymast“ segir Guðbergur.

Drengurinn hefur ekki fengið nafn en foreldrarnir hafa nú þegar fengið uppástungu og voru þau hvött til að nefna drenginn Garðar en það er nafn björgunarsveitarinnar sem fór á undan sjúkrabílnum í nótt. „Þeir sáu til þess að bíllinn kæmist alla leið. Þeir eru með öflugri bíl og ljós og sáu stikurnar á undan sjúkrabílnum,“ segir Guðbergur glaður í bragði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert