Léleg loftgæði í Reykjavík

Mengun í andrúmsloftinu var yfir heilsuverndarmörkum í Reykjavík í morgun en við slíkar aðstæður er mælst til þess að einstaklingar með ofnæmi eða alvarlega hjarta- eða lungnasjúkdóma forðist að vera úti í nálægð við miklar umferðargötur.

Heiðskírt og logn er í borginni í dag en sjá má gulbrúna mengunarslikju við sjóndeildarhringinn og í lægðum s.s. við Grensás og Elliðaárdal.

Köfnunarefnisdíoxíð og eldfjallaaska

Loftgæði teljast góð, samkvæmt flokkunarkerfi heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar, ef magn svifryks mælist innan við 50 míkgrógrömm á rúmmetra í andrúmsloftinu. Um leið og svifryksmagnið fer upp fyrir 50 míkrógrömm telst það yfir heilsuverndarmörk og geta einstaklingar með astma fundið fyrir einkennum í öndunarvegi.

Fari svifryk upp fyrir 100 míkrógrömm á rúmmetra flokkast loftgæði sem slæm og þannig var ástandið klukkan 9 í morgun samkvæmt  loftgæðamælingum í Reykjavík. Köfnunarefnisdíoxíð (NO2) mældist í morgun 103,8 µg/m³. Um er að ræða eitraða gastegund sem getur valdið öndunarerfiðleikum ef styrkur þess verður mjög hár. Köfnunarefnisdíoxíð getur einnig truflað vöxt plantna og átt þátt í súru regni.

Köfnunarefnisdíoxíð kemur fyrst og fremst frá umferð og er er styrkurinn því oft sérstaklega hár við miklar umferðargötur. Þá má einnig gera ráð fyrir því að mengunin sé öskublönduð, en töluvert af ösku og mold barst yfir höfuðborgina frá Suðurlandi með storminum sem gekk yfir landið í síðustu viku. Er því alveg ljóst að áhrifa eldgosanna í Eyjafjallajökli og Grímsvötnum gætir enn.

Skánar með meiri vætu

Kristín Lóa Ólafsdóttir hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur segir að veðurskilyrðin valdi því m.a. að sólarhringsgildin séu svo há núna en í morgun var hægur vindur og kalt í borginni.

Samkvæmt veðurspánni mun hlýna þegar líður á daginn og er þá hugsanlegt að eitthvað af þeim snjó sem enn er í köntum bráðni sem getur hjálpað til við að binda rykið í andrúmsloftinu. Þá má að sögn Kristínar Lóu má vænta þess að ástandið skáni þegar líður á morgundaginn en þá spá veðurfræðingar vætu á höfuðborgarsvæðinu.

Miðað er við það í reglugerð að loftmengun megi fara yfir heilsufarsmörk 7 sinnum yfir árið. Aðspurð segir Kristín Lóa að það sem af er ári hafi gildin í farstöðu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur farið 3 sinnum yfir sólarhringsheilsuverndarmörk. Þar af eitt skipti um áramót, þegar mikið svifryk er vegna flugelda, en einnig 14. febrúar og 4. mars.

Fylgjast má með loftgæðum á heimasíðu Reykjavíkurborgar. Kristín Lóa segir að meðvitund sé að aukast og margir fylgist með mælingum á síðunni, þ.á.m. margir leikskólar sem gæti þess að hafa börnin ekki of mikið úti af loftgæðin mælast sem slæm.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert