„Stundum er ófært í þessa hella“

Sveitarstjóri Mýrdalshrepps segir að fólk reyni stundum að klifra í …
Sveitarstjóri Mýrdalshrepps segir að fólk reyni stundum að klifra í þessu stuðlabergi til að sjá hella sunnan í Reynisfjalli þegar ófært er í fjörunni sökum brims. mbl.is/RAX

„Auðvitað höfum við áhyggjur af því ef fólk er að slasa eða meiða sig hér í umhverfinu - sannarlega höfum við áhyggjur af því. Allir ferðamenn eru velkomnir hingað og við viljum sannarlega reyna að tryggja öryggi þeirra sem best,“ segir Ásgeir Magnússon, sveitarstjóri Mýrdalshrepps, spurður út í öryggismál í Reynisfjöru en í frétt mbl.is fyrr í dag var sýnt myndband af fólki í briminu í Reynisfjöru þar sem alda gekk yfir ferðamennina.

Stendur ekki til að loka fjörunni

„En ég veit ekki nákvæmlega hvað við gætum gert til þess að reyna að koma í veg fyrir þetta. Það er þekkt að fólk fer stundum óvarlega þarna. En þetta er nú vandlega merkt og fólk varað við að fara og nálægt briminu. Ég veit ekki hvað maður getur gert mikið meira. Það stendur ekki til að loka fjörunni,“ sagði Ásgeir

Hann segir að það sé skilti við bílastæðin þar sem fólk komi að fjörunni og þar séu menn varaðir við briminu í fjörunni.

„Það er ekkert skilti ofan í fjörunni sjálfri enda stæði það ekki lengi þar því þarna eru oft stórbrim. Við erum við úthafið eins og hægt er að vera. Þarna er oft mikið brim. Það er eins og getur verið á Suðurströndinni. Ég geri mér ekki grein fyrir því hvort það er yfirleitt hægt að tryggja það að menn fari ekki óvarlega þarna,“ sagði Ásgeir.

Ásgeir segir að menn séu að sækja í að ganga fyrir stuðlabergsstapa sem eru í Reynisfjalli til að sjá hella sem þar eru sunnan í fjallinu.

„Menn verða bara að sætta sig við að stundum er ófært í þessa hella. Þegar háflóð og brim er þá er ófært að fara í þessa hella og ekki hægt. Þá eru menn stundum að fíflast við það að klifra þarna upp á stuðlabergsstabbana og þá hafa menn farið illa,“ segir Ásgeir.

Hann segir að það megi hugsa sér að setja upp einhverjar merkingar sem séu nær hættusvæðinu í fjörunni.

„Ég veit svosem ekki hvort menn taki meira mark á þeim merkingum en þeim sem eru þarna í dag. Kannski eru fleiri merkingar betri en færri. Það má kannski skoða það en sjálfsagt að fara yfir þessu mál,“ segir Ásgeir.

FERÐAMENN í Reynisfjöru fengu ærlegt bað í gær þegar þeir …
FERÐAMENN í Reynisfjöru fengu ærlegt bað í gær þegar þeir hugðust njóta nálægðarinnar við saltan sjó í fjöruborðinu. mbl.is/RAX
Ásgeir Magnússon, sveitarstjóri Mýrdalshrepps.
Ásgeir Magnússon, sveitarstjóri Mýrdalshrepps. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert