Eitt elsta og virðulegasta borðið sem í notkun er hér á landi

Gamla eikarborðið sem formenn stjórnmálaflokka settust við með Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, í bókhlöðunni á Bessastöðum í vikunni er líklega það borð á Íslandi sem einna oftast hefur verið myndað. Er borðið talið vera hátt í 400 ára gamalt.

Er það að auki með allra elstu og virðulegustu borðum sem eru í reglubundinni notkun.

Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu forseta Íslands hefur borðið verið í notkun á Bessastöðum allan lýðveldistímann. Var það keypt til landsins frá Bretlandi ásamt fleiri húsmunum í tíð Sveins Björnssonar, ríkisstjóra og síðar fyrsta forseta Íslands. Hafði Pétur Benediktsson, þá sendiherra í Lundúnum, milligöngu um kaupin.

Jafnan kallað „Jóhann landlausi“

Morgunblaðinu hafa borist viðbótarupplýsingar um þetta ágæta borð. Það gengur jafnan undir nafninu „Jóhann landlausi“, þar sem að fyrstu árin eftir að það var keypt fyrir ríkisstjóraembættið af Pétri var það á flækingi milli herbergja í Stjórnarráðinu. Er borðið talið vera frá um miðri 16. öld.

Nafngiftin er komin frá Jónasi frá Hriflu en þessu lýsir Pétur Eggerz skemmtilega í viðtali í Vísi 27. nóvember árið 1971, spurður hvernig nafnið á borðinu er tilkomið:

„Það kom til af því að borðið, sem var nokkuð þungt og viðamikið, passaði ekki allskostar í þrönga skrifstofu Sveins Björnssonar. Bað hann því um að það væri fjærlægt eftir hvern ríkisstjórnarfund. Var borðið því sífellt á fartinni, enda þótt það væri erfitt í flutningi. Einhverju sinni kom Jónas frá Hriflu að okkur í þessum flutningi. „Hvar á Jóhann landlausi að fá griðastað nú?“ spurði Jónas kíminn á svip. Þar með var nafnið fengið.“

Var borðinu fyrst komið fyrir á skrifstofu forseta Íslands í Alþingishúsinu, en flutt til Bessastaða eftir að bókhlaðan var byggð 1965 við aðalhúsið í tíð Ásgeirs Ásgeirssonar forseta. Skrifstofa forseta Íslands var til húsa í Alþingishúsinu fram til ársins 1973, er hún var flutt í Stjórnarráðshúsið, og síðan flutt árið 1996 að Sóleyjargötu 1.

Eina forskriftin sem Pétur Benediktsson sendiherra fékk, þegar hann var beðinn um að kaupa húsgögn fyrir Bessastaði, þá bústað ríkisstjóra, árið 1941, var að þau skyldu að jafnaði ekki vera yngri en Bessastaðastofa, sem byggð var 1761-66. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert