„Skýr skilaboð til aldraðra“

Sigrún Magnúsdóttir, Eygló Harðardóttir, og Ragnheiður Ríkharðsdóttir á blaðamannafundinum í …
Sigrún Magnúsdóttir, Eygló Harðardóttir, og Ragnheiður Ríkharðsdóttir á blaðamannafundinum í dag. Mbl.is/Rósa Braga

„Þetta er fyrsta skrefið í því að draga til baka skerðingar sem komu til framkvæmda á árinu 2009,“ sagði Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, á blaðamannafundi í dag þar sem nýtt frumvarp hennar um breytingar á lögum um almannatryggingar var kynnt.

Í frumvarpinu er kveðið á um hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna aldraðra og afnám skerðingu grunnlífeyris vegna greiðslu úr lífeyrissjóðum. Þá verða eftirlitsheimildir Tryggingastofnunar auknar. Fundinn sátu einnig Sigrún Magnúsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins og Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.

Frítekjumark aldraðra sama og öryrkja

„Þarna er verið að færa frítekjumarkið vegna atvinnutekna í sömu upphæð og öryrkjar hafa nú þegar,“ sagði Eygló, en fyrri hluti frumvarpsins snýr því eingöngu að öldruðum. Hún sagði breytingarnar sem varða grunnlífeyrinn bæði snúa að öryrkjum og öldruðum en frumvarpið væri þó aðeins fyrsta skrefið í því að bæta kjör lífeyrisþeganna. 

Að sögn Eyglóar hefur frumvarpið verið samþykkt í báðum þingflokkum meirihlutans og verður það lagt fram á Alþingi í dag. Hún sagðist gera ráð fyrir að frumvarpið fengi skjóta afgreiðslu á sumarþinginu. Vinnan við endurskoðun laga um almannatryggingar mun halda áfram í haust og og verður skerðing á tekjutryggingum þar ofarlega á baugi.

Aldraðir geta nú keypt jólagjafir 

„Það er mikilvægt að auka virkni aldraðra og að þeir sem hafi getu til geti aflað sér atvinnutekna án þess að lífeyrinn skerðist,“ sagði Sigrún Magnúsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, á fundinum í dag. Eygló tók undir þetta og sagði að með þessu væri verið að þrefalda möguleika þeirra á því að afla atvinnutekna. „Það eru mjög skýr skilaboð um að við þurfum á þeim að halda.“

„Við teljum að nú muni aldraðir geta keypt jólagjafir handa barnabörnunum,“ sagði Sigrún. „Með frumvarpinu reynum við að koma til móts við þennan hóp sem þola mátti skerðingar á mörgum sviðum.“

Frétt mbl.is: Frítekjumark aldraðra hækkað

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert