Norðurljós dansa fyrir borgarbúa

Norðurljós dansa um himininn yfir höfuðborgarsvæðinu í kvöld. Ljósmengun borgarinnar spillir ljósadýrðinni ekki að ráði og skýjahulan er nógu þunn svo að þau sjást vel víða. Ljósin sáust einnig vel á Norðurlandi í kvöld.

„Allur Grafarvogurinn logaði í kvöld af norðurljósum,“ segir Ósk Laufdal sem sendi mbl.is mynd af norðurljósunum nú í kvöld. Ósk segist taka mörg þúsund ljósmyndir á hverju ári en hafi aldrei náð svona góðri mynd af norðurljósum. Það sé óvenjulegt að sjá þau svona vel yfir Reykjavík. „Ég var úti að ganga og sá þessa ljósadýrð. Ég var aldrei þessu vant ekki með myndavélina á mér en hljóp heim og náði í hana.“

Ósk tók myndina í Foldahverfinu en ljósmyndarar mbl.is, Árni Sæberg og Golli, voru einnig á ferðinni og tóku myndir af ljósunum.

„Norðurljósaspáin er mikið notuð af þeim sem gera út á norðurljós, eins og ferðaþjónustunni,“ sagði Óli Þór Árnason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, um norðurljósaspá Veðurstofunnar, í viðtali í Morgunblaðinu nýlega. Hann segir hana nokkuð áreiðanlega en bendir hinsvegar á að „skýjahuluspáin sé með viðkvæmustu spáafurðum. Skýjaeðlisfræðin er flókin og þessar spár eru ekki komnar eins langt og almennar spár,“ segir Óli Þór. Að sjá norðurljósin sé alltaf „svolítið lottó“.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert