Konur, kampavín og kynlíf eiga betra skilið

Kampavín
Kampavín

Hvað fyndist okkur um það ef ömmur okkar hefðu verið seldar til nýlenduþjóðanna í vændi, þegar Ísland var eitt af fátækustu ríkjum Evrópu? Þessari spurningu var varpað fram á Alþingi í dag. Þar fordæmdu þingmenn kampavínsklúbba fyrir að leika á og gera lítið úr löggjafavaldinu og boðuðu breytingar.

„Ef þú drekkur kampavínsflöskuna á 15 mínútum kostar hún 20 þúsund krónur, en ef þú drekkur sömu flösku á klukkutíma þá kostar hún 60 þúsund [...] Það segir okkur hvað þessir staðir eru að leika á okkur löggjafavaldið. Gera lítið úr okkur löggjafavaldinu. Þeir fara í kringum lögin, og við megum ekki beita okkur.“

Þetta sagði Björk Vilhelmsdóttir í jómfrúarræðu sinni á Alþingi í dag, en hún tók þar sæti í fyrsta sinn sem varaþingmaður Samfylkingarinnar og lét það vera sitt fyrsta verk að mæla fyrir um þingsályktunartillögu um endurskoðun laga um rekstur veitingastaða, með því markmiði að koma í veg fyrir rekstur staða sem gera út á nekt starfsfólks og aðgengi að líkama þeirra í einkarými.

Himinhátt kampavínsverð ekki lögreglumál

Björk benti á að kampavínsstaðir, eða nektarstaðir, hafi í gegnum árin unnið deilur við bæði lögreglu og sveitastjórnir vegna þess að lögin séu ekki nógu skýr. 

T.d. hafi Strawberries í Lækjargötu kært og unnið mál gegn lögreglu fyrir að hafa lokað staðnum árið 2008, og innanríkisráðuneytið úrskurðað að það væri „ekki í verkahring lögreglunnar að skipta sér af himinháu verði á kampavíni“. Staðurinn hafi því opnað aftur, þó svo lögregla hafi í sínum málflutningi reynt að sanna að kampavínið væri gjaldmiðill fyrir vændi.

Björk rifjaði upp að Reykjavíkurborg hafi einnig fengið á sig úrskurði um að borgaryfirvöld mættu bara gefa umsagnir um opnunartíma og staðsetningu staða, en ekki skipta sér af eðli starfseminnar né taka tillits til ótal kvartana og lögregluskýrslna. Hún sagði koma skýrt fram í nýlegum úrskurðum að hendur sveitastjórna væru bundnar og þær megi ekki segja að ákveðin starfsemi sé andstæð lögum og reglum. 

„En það er hægt að breyta lögunum og tala skýrar,“sagði Björk og bætti við að lögfræðingar nefndarsviðs Alþingis hafi hugmyndir um það með hvaða hætti það verði best gert.

Neyð fátækra kvenna nýtt

„Kampavínsstaðir koma ekki bara óorði á kampavín, þeir markaðssetja og klámgera kynlíf og konur og vinna þannig markvisst gegn réttindum kvenna,“ sagði Björk til útskýringar á því hvers vegna hún telur þessa lagabreytingu mikilvæga.

Hún sagði mikilvægt að gera sér grein fyrir því að konurnar sem verið er að selja gætu verið systur okkar og dætur, en í raun séu þær þó aðallega frá Rúmeníu, Hvíta-Rússlandi og öðrum fátækum löndum.

„Þær eru ginntar með góðu lífi á Vesturlöndum, gerðar að kynlífsþrælum þar til þær hlýða í einu og öllu,“ sagði Björk og minnti á að Íslandi hafi fyrir nokkrum áratugum verið í hópi með fátækustu löndum.

„Hvað fyndist okkur um það ef ömmur okkar hefðu verið seldar til nýlenduþjóðanna sem þá áttu pening? Mér finnst það sjálfri ekki góð tilhugsun ef Stebba amma eða Sigríður amma hefðu verið teknar með þessum hætti og seldar. En þegar þær voru ungar konur var Ísland fátækt land eins og Rúmenía er í dag. Það er hollt fyrir okkur að setja okkur sjálf í þessi spor,“ sagði Björk.

Kynlíf líka fyrir 100 kílóa eldri borgara

Fyrsta ræðutíma sinn á Alþingi nýtti Björk líka til að tala um kynlíf. „Mig langar líka til að tala um kynlíf, því kynlíf er svo gott, sérstaklega með þeim sem við elskum og vilja vera með okkur,“ sagði Björk.

Hún sagði kampavínsklúbba sem markaðssetja konur og um leið kynlíf vera hluta af klámvæðingu sem taki gleði frá þeim sem ekki uppfylli þá staðalmynd sem er til sölu.

„Því það er aldrei verið að selja til dæmis konur eins og mig. En kynlíf er ekki síður fyrir okkur sem eru orðin 100 kíló og komin á virðulegan aldur. Við eigum að berjast fyrir rétti okkar, sem erum ekki samkvæmt staðalmyndinni, og gegn klámvæðingunni sem gerir svo lítið úr þessum þætti í lífi okkar,“ sagði Björk.

Óþolandi að farið sé í kringum kerfið

„Mér finnst að konur, kampavín og kynlíf eigi miklu betra skilið en það sem er í boði á þessum svo kölluðu kampavínsklúbbum,“ sagði hún að lokum og hvatti þingmenn til að sýna þeim sem leikið hafi á löggjafavaldið að þeir geti líka verið viðbragðsfljótir.

Samstaða virðist um tillögu Bjarkar, þvert á stjórnmálaflokka og kyn þingmanna. Elín Hirst þingmaður Sjálfstæðisflokksins vakti athygli á þessu og sagði fagnaðarefni.

Elín sagði skýran vilja stjórnvalda til að stemma stigu við starfsemi af þessu tagi og því óþolandi að hægt sé að fara í kringum kerfið með því að nota annan gjaldmiðil, eða kalla starfsemina eitthvað annað.

Ræðu Bjarkar má sjá hér að neðan:

Björk Vilhelmsdóttir borgarfulltrúi Samfylkingarinnar tók sæti á Alþingi í fyrsta …
Björk Vilhelmsdóttir borgarfulltrúi Samfylkingarinnar tók sæti á Alþingi í fyrsta sinn í gær.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu afturkallaði rekstrarleyfi Strawberries í Lækjargötu árið 2008 …
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu afturkallaði rekstrarleyfi Strawberries í Lækjargötu árið 2008 en lokunin var kærð og staðurinn opnaður aftur. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert