Ljósmóðir fegursta orðið

Nýfætt barn í fangi ljósmóður.
Nýfætt barn í fangi ljósmóður. mbl.is/Golli

Ljósmóðir er fegursta orð íslenskrar tungu. Þetta er niðurstaða kosningar sem fram hefur farið undanfarnar vikur. Hugfanginn og spékoppar fylgdu þar á eftir. Niðurstaðan var kynnt í Kastljósi sjónvarpsins í kvöld. Lauk þar með leit Hugvísindasviðs og RÚV að fegursta orðinu sem staðið hefur frá 24. september.

Þrjú fegurstu orðin að mati yngstu þátttakenda í keppninni voru mamma (3. sæti), einstök og spékoppar sem varð hlutskarpast.

Í aldurshópnum 16-25 ára voru það orðin seigla, fiðringur og hugfangin (1. sæti). Í aldurshópnum 25 ára og eldri, sem flestir þátttakendur tilheyra, voru það orðin sindrandi, bergmál og ljósmóðir sem hlutu flest atkvæði.

Alls bárust tillögur um fegursta orðið frá um 8.500 einstaklingum og úr þeim valdi starfshópur Hugvísindasviðs Háskóla Íslands og RÚV 30 orð, tíu í hverjum aldurshópi, bæði með hliðsjón af orðinu og ástæðu fyrir tilnefningu þeirra. Almenningi gafst svo kostur á að kjósa á milli þessara orða. Þá höfðu rúmlega þrettán þúsund manns greitt atkvæði.

Yngsti aldursflokkurinn - fædd 1997 eða síðar:

3. sæti: Mamma. Kristján Páll Rósinkranz, sex ára. Móðir hans segir að hún hafi spurt hann af hverju honum þætti þetta orð fallegast og þá svaraði Kristján: „Af því að þú ert mamma mín.“

2. sæti: Einstök. Hugrún Lilja Pétursdóttir, tíu ára. Í rökstuðningi hennar sagði m.a.: Allir verða einhvern tímann að fá hrós og einstök er hrós og hlýtt orð.

1. sæti: Spékoppar. Nanna Guðrún Sigurðardóttir, 13 ára. Hún segir að spékoppar séu fallegir og að það sé gaman að segja orðið sem hljómi furðulega.

Aldurshópurinn 16-25 ára:

3. sæti: Seigla. Jóhanna Ásta Þórarinsdóttir. „Seigla er í einu orði þrjóska, dugnaður og þolinmæði. Óendanlega fallegt orð sem lýsir óbilandi krafti.“

2. sæti: Fiðringur. Hugrún Sigurðardóttir. „Alltaf þegar ég hugsa um fiðring hugsa ég um eitthvað skemmtilegt. Þú færð fiðring í magann áður en þú ferð í rússíbana eða gerir eitthvað spennandi. Tilfinningin sem kemur er nánast ólýsanleg en samt virðist þetta orð lýsa því eins vel og hægt er, nokkrar fjaðrir í maganum á þér sem kitla þig alla að innan. Hver fékk ekki fiðring í magann þegar maður kyssti einhvern í fyrsta skiptið….?“

1. sæti: Hugfangin. Sigrún Stella Þorvaldsdóttir.„ Orðið merkir að vera heillaður af einhverjum, maður er fangi í sínum eigin huga. Þú ert gagntekinn af einhverju eða einhverjum. Mér finnst orðið mjög fallegt.“

Aldurshópurinn 25 ára og eldri (langflestar tillögur)

3. sæti: Sindrandi. Svanhildur Konráðsdóttir. „Orðið er svo tært og tilgerðarlaust. Það felur í sér töfraheim Íslands; frostbrakandi vetrarstillur, dansandi næturljós, morgundögg í fjallakyrrð, merlandi sjóndeildarhring við sólsetur… svo fátt eitt sé til talið.“

2. sæti: Bergmál. Borgþór Ágústsson. „Ég hugsaði aldrei um þetta orð fyrr en að sænskur vinur minn, sem skilur einnig töluvert í íslensku, benti mér á að þetta orð væri svo undarlega fallegt. Tungumál fjallanna. Hann sagði að þetta væri eitt af fjölmörgum fallegum íslenskum orðum og við værum mjög dugleg að búa til góð orð í stað þess að taka upp erlend orð. Þegar ég hugsa núna um þetta orð finnst mér það afar fallegt og afar íslenskt.“

1. sæti: Ljósmóðir. Magnús Ragnarsson, fæddur 1963. „Tvö fallegustu hugtök veraldar sett í eitt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert