Munu líta til máls Keikós

Háhyrningurinn Tilikum.
Háhyrningurinn Tilikum. Wikipedia

Litið verður til máls Keikós og annarra sambærilegra mála og reynslu af þeim þegar umsókn bandarískra aðila um að fá að sleppa háhyrningnum Tilikum í hafið við við Íslandsstrendur verður tekin fyrir.

Sjávarútvegsráðuneytið hefur staðfest að umsóknin hafi borist og er hún nú komin til Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegs- og umhverfisráðherra, en Morgunblaðið greindi frá því að dag að umsóknin hefði borist.

Samkvæmt upplýsingum sem fengust frá ráðuneytinu í morgun þarf til að mynda að kanna sjúkdómshættu áður en ákvörðunin verður tekin. Í gegnum tíðina hafa margir óskað eftir því að fá að taka lifandi dýr úr hafinu við Ísland en langur tími er síðan slíkt var heimilað.

Að sögn Benedikts Sigurðssonar, aðstoðarmanns Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegs- og umhverfisráðherra, mun ráðherra meðal annars leita álits hjá sérfræðingum og Hafrannsóknastofnun vegna umsóknarinnar. Málið er þó aðeins eitt þeirra sem bíður ákvörðunar ráðherra og liggur ekki fyrir hvenær umsókninni verður svarað.

Þjálfararnir snerta ekki Tilikum

Tilikum er sagður hafa verið veiddur við Íslandsstrendur, nánar tiltekið í Berufirði, árið 1983. Þá var hvalurinn tveggja ára gamall og er hann því 32 ára í dag. Meðalaldur villtra karldýra er um 29 ár, en talið er að elstu dýrin hafi orðið 50 til 60 ára. Í febrúar árið 2010 drap Tililkum konu, þjálfara sinn til margra ára.

Áður hafði hann orðið tveimur að bana, þjálfara og gesti í dýragarði. Eftir þriðja drápið sýndi Tilikum ekki listir sínar í dýragarðinum SeaWorld í Orlando fyrr en í mars árið 2011. Þjálfarar hans hafa ekki verið með honum í vatninu eftir síðasta drápið árið 2010 og er sérstakur búnaður notaður til að nudda hann í stað snertingar þjálfarans. Háhyrningurinn hefur getið af sér 21 afkvæmi og eru ellefu þeirra á lífi.

Kvikmyndastjarnan Keikó

Fimmtán ár eru nú liðin síðan Keikó, háhyrningurinn frægi, kom til landsins. Hann var fangaður nærri Reyðarfirði árið 1979 og drapst úr lungnasjúkdómi árið 2003, þá 27 ára. Keikó var þriggja ára þegar hann var fangaður og næstu þrjú árin dvaldi hann í búri í Hafnarfirði en var síðar seldur til þjálfunar. Bandaríski sjóherinn sá um þjálfunina í fyrstu. Háhyrningurinn sló í gegn í kvikmyndinni Free Willy árið 1993. Gerðar voru tvær framhaldsmyndir og lék Keikó einnig í þeim.

Hinn 9. september 1998 var Keikó fluttur aftur til Íslands, en markmiðið var að sleppa honum lausum eftir þjálfun við Vestmannaeyjar. Ekki leist öllum jafn vel á þessa hugmynd og komst norski stjórnmálamaðurinn Steinar Bastesen meðal annars í heimsfréttirnar þegar hann sagði drepa ætti Keikó og senda kjötið sem neyðaraðstoð til Afríku.

Aldrei raunhæfur möguleiki að vera frjáls

Fjórum árum síðar, árið 2002, töldu þjálfarar hans að hægt væri að sleppa dýrinu lausu. Þá hafði tími hans með þjálfurunum nokkrum sinnum verið framlengdur og margar tilraunir gerðar til þess að fá hann til að aðlagast, veiða sér til matar og blanda geði við aðra háhyrninga.

Í september, sex vikum síðar, urðu íbúar í Helsa í Noregi varir við hann og léku jafnvel við hann. Stuttu síðar, að beiðni dýraverndarsamtaka, var almenningi bannað að eiga samskipti við hann þar sem hann átti að aðlagast lífi háhyrninga og ekki að umgangast fólk. Hinn 10. desembar 2003 greindist hann með lungnasjúkdóm sem síðar varð honum að bana hinn 12. desember 2003. Var hann grafinn á landi

Vísindamenn, sem tóku þátt í því verkefni að frelsa háhyrninginn Keikó og flytja hann til Íslands, sögðu árið 2009 að ekki hafi verið rétt að frelsa hann þar sem aldrei hafi verið raunhæfur möguleiki á því að hann gæti lært að lifa úti náttúrunni.

„Jafnvel þótt mönnum finnist það falleg hugsun að sleppa dýri sem lengi hefur verið í haldi eru mjög miklar líkur á því að það stofni lífi þess og velferð í hættu,” sagði Malene Simon, vísindamaður við stofnunina Greenland Institute of Natural Resources. 

Frétt Morgunblaðsins: Öðrum háhyrningi sleppt við Ísland?



Keikó.
Keikó. Ásdís Ásgeirsdóttir
C-17-Flugvél bandaríska flughersins kemur inn til lendingar í Vestmannaeyjum. Eins …
C-17-Flugvél bandaríska flughersins kemur inn til lendingar í Vestmannaeyjum. Eins og sjá má hallast vélin mjög til hægri og þegar hún lenti brotnaði lendingarbúnaður hægra megin. Ekki voru til staðar nógu öflug tæki til að færa vélina. Ásdís Ásgeirsdóttir
Uppblásinn háhyrningur í blómabúðinni Eyjablóm tveimur dögum áður en Keikó …
Uppblásinn háhyrningur í blómabúðinni Eyjablóm tveimur dögum áður en Keikó kom til Vestmannaeyja í september árið 2008. Kristinn Ingvarsson
Mikill viðbúnaður var í Vestmannaeyjum þegar Keikó var fylgt á …
Mikill viðbúnaður var í Vestmannaeyjum þegar Keikó var fylgt á bátum fyrsta spölinn úr Klettsvík út á úfið Atlantshafið. Ásdís Ásgeirsdóttir
Kvíin hans Keikó
Kvíin hans Keikó Rax / Ragnar Axelsson
Frá Vestmannaeyjum.
Frá Vestmannaeyjum. Kristinn Ingvarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert