13 marka stúlka fyrsta barn ársins

mbl.is/Eggert

Klukkan 05:34 í morgun fæddist stúlka í heimahúsi í Garðabæ, en hún er að öllum líkindum fyrsta barn ársins. Þetta er í fyrsta sinn frá árinu 2009 sem fyrsta barn ársins fæðist í heimafæðingu. Stúlkan var þrettán merkur.

Að sögn Kristbjargar Magnúsdóttur ljósmóður, sem tók á móti stúlkunni, heilsast bæði móður og barni vel.

Fyrsta barnið sem fæddist á fæðingardeild Landspítalans var stúlka, en hún kom í heiminn kl. 07:05. Fyrsta barnið sem fæddist í Hreiðrinu var drengur sem kom í heiminn kl. 08:08.

Fyrstu börnin sem fæddust á Sjúkrahúsinu á Akureyri voru tveir drengir sem fæddust með fimm mínútna millibili. Annar þeirra fæddist kl. 08:17 en hinn kom í heiminn 08:22.

mbl.is