Riff var ekki lengi í (Bíó) Paradís

Gestir Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar, RIFF, hafa ekki alltaf notið mynda við …
Gestir Alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar, RIFF, hafa ekki alltaf notið mynda við hefðbundnar aðstæður. Myndin er tekin í Sundhöll Reykjavíkur haustið 2009. mbl.is/Kristinn

Óvíst er hvort Alþjóðlega kvikmyndahátíðin í Reykjavík (RIFF) verður haldin í haust, en þó ekki útilokað skv. því sem Sunnudagsblað Morgunblaðsins kemst næst, þrátt fyrir að Reykjavíkurborg hafi ákveðið á dögunum að veita hátíðinni ekki fjárstyrk í ár. RIFF hlaut í fyrra hátt í tíu milljóna króna styrk frá borginni, annað eins frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu, auk þess sem fjölmörg fyrirtæki hafa veitt hátíðinni fjárstyrki þann áratug sem hún hefur verið við lýði.

Greinargerðin trúnaðarmál

Ákvörðun Reykjavíkurborgar á dögunum vakti töluverða athygli. Einar Örn Benediktsson borgarfulltrúi Besta flokksins og formaður Menningar- og ferðamálaráðs Reykjavíkur, hefur lagt áherslu á að síðan flokkurinn komst til valda í borginni hafi í þessum efnum alltaf verið farið eftir tillögum faghóps Bandalags íslenskra listamanna (BÍL) og engin ástæða hafi verið til að breyta út frá þeirri venju nú.

Að þessu sinni lagði faghópur BÍL til við ráðið að gerður yrði samningur við Heimili kvikmyndanna – Bíó Paradís ses. til eins árs vegna Kvikmyndahátíðar í Reykjavík 2014 að fjárhæð átta milljónir króna. Tillagan var samþykkt á fundi Mennta- og ferðamálaráðs 16. desember með fimm atkvæðum fulltrúa Besta flokksins, Samfylkingarinnar og Vinstri grænna en fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá.

Vert er að geta þess að heimildir úr stjórnkerfinu herma að strax árið 2010, eftir að Besti flokkurinn komst til valda, hafi í raun verið óformlega ákveðið að hætta stuðningi við RIFF. Frá því var horfið þá og ekkert skal fullyrt hvort ákvörðunin nú tengist vilja Besta flokksins þá. Gunnar Hrafnsson, formaður faghóps BÍL, lagði í gær áherslu á að niðurstöður hópsins byggðust eingöngu á faglegum forsendum og hópurinn hefði algjörlega haft frítt spil.

„Greinargerðin með skoðunum okkar er trúnaðarmál,“ sagði Gunnar í gær þegar forvitnast var um ástæður breytinganna. Sótt væri um alls 270 milljónir en 70-80 úthlutað og því væri óðs manns æði að rökstyðja allar tillögur hópsins. Gunnar sagði þó að umsóknin sem veitt var brautargengi hefði einfaldlega höfðað sérstaklega vel til hópsins.

Heimili kvikmyndanna ákvað í haust að sækja í fyrsta skipti um styrk til Reykjavíkurborgar vegna nýrrar kvikmyndahátíðar. Í bréfi til fagfólks í kvikmyndagerð segir að sú ákvörðun hafi verið tekin þegar fyrir lá að myndir á vegum RIFF yrðu ekki sýndar í Bíó Paradís „vegna viðskiptalegra forsendna eiganda RIFF“. Þar er átt við Hrönn Marinósdóttur. Hún fæst ekki til þess að tjá sig um það atriði en rétt að benda á að á síðasta ári voru myndir á RIFF ekki sýndar í Bíó Paradís, eins og árin á undan. Viðmælandi blaðsins í kvikmyndahúsabransanum fullyrðir að það hafi einfaldlega verið vegna þess að aðrir gerðu hátíðinni mun hagstæðara tilboð en Bíó Paradís.

Stjórn RIFF skrifaði í vikunni opið bréf til Reykjavíkurborgar þar sem ákvörðun borgaryfirvalda er hörmuð. Þar kemur fram að Menningar- og ferðamálaráð hafi lagt mikinn þunga á samstarf við Heimili kvikmyndanna – Bíó Paradís og RIFF hafi sýnt áhuga á því og vilji verið fyrir því að gera langtímasamning um samstarf. Ákveðið hafi verið í lok nóvember að efna sem fyrst til samráðs- og vinnufundar til að útfæra nánara samstarf næstu hátíða en stjórn Bíó Paradísar ekki enn séð sér fært að ákvarða dagsetningu þess fundar.

 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert