Reyndi að lokka börn upp í bifreið

Lögreglan lítur málið alvarlegum augum.
Lögreglan lítur málið alvarlegum augum. Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst í morgun tilkynning um að karlmaður hefði reynt að lokka tvo sex ára pilta upp í bifreið við Laugarnesskóla í Reykjavík í gær. Lögreglan segir að drengirnir hafi brugðist hárrétt við og neitað að fara með manninum.

Benedikt Lund, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is, að móðir annars drengjanna hefðu tilkynnt um atvikið í morgun.

Að sögn drengjanna var maðurinn skeggjaður og ók hann rauðri bifreið. Þeir segja að atvikið hafi átt sér stað í frímínútunum í gær, en nánari tímasetning liggur ekki fyrir að sögn Benedikts. Maðurinn reyndi að lokka drengina upp í bílinn með því að bjóða þeim sælgæti.

Benedikt segir aðspurður að drengirnir hafi brugðist rétt við og hann bætir því við að skólayfirvöld hafi nýlega verið frætt nemendur skólans um þessa hættu.

Þá segir hann að lögreglan líti svona tilkynningar mjög alvarlegum augum. Hún fari nú til sérstakrar greiningardeildar sem heldur utan um slíkar tilkynningar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert