Rykský yfir Kirkjubæjarklaustri

„Svona er þetta bara alltaf þegar það er hvasst hérna eða vindur. Ég er hérna úti á tröppum á Kirkjubæjarstofu og þar er hægt að skrifa í öskuna á þröskuldinum. Ef gengið er í grasi þá verður maður grár upp að hnjám. Þetta er svona grænbrúnt efni.“

Þetta segir Kári Kristjánsson á Kirkjubæjarklaustri í samtali við mbl.is en rykský hefur verið á svæðinu frá því í morgun samhliða hvössum vindáttum. Hann segist telja líklegast að um sé að ræða ösku úr eldgosinu í Grímsvötnum árið 2011. „Maður finnur fyrir þessu ef maður er úti, bæði uppi í sér og á hörundi. Og svo smýgur þetta um allt.“

Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir í samtali við mbl.is að ekki sé víst að um ösku sé að ræða enda sé hún sennilega að mestu frosin um þessar mundir uppi á hálendinu. Líklegra sé að um sé að ræða leir- og moldarryk af úr nágrenninu enda hafi verið mjög þurrt að undanförnu.

mbl.is