Ég er það sem kallað er snúbúi

Kristín (t.h) og Aðalheiður Héðinsdóttir afhenda Kaffitári Íslandskort Söguhrings kvenna …
Kristín (t.h) og Aðalheiður Héðinsdóttir afhenda Kaffitári Íslandskort Söguhrings kvenna í Þjóðminjasafni í haust. Söguhringur kvenna er samstarfsverkefni Samtaka kvenna af erlendum uppruna og Borgarbókasafns. mbl.is

Á Íslandi eru töluð yfir hundrað tungumál og í dag hefst Móðurmálsvikan. Þá verður ýmislegt skemmtilegt í boði. Kristín R. Vilhjálmsdóttir, verkefnastjóri fjölmenningar í Borgarbókasafni, stendur fyrir sögustund í Gerðubergi fyrir börn á tíu tungumálum. Kristín ólst upp í Danmörku og bjó þar í þrjátíu ár og er því tvítyngd. Hún telur og blótar á dönsku, sínu hjartans máli.

Ég veit af eigin reynslu hversu mikilvægt það er að halda móðurmálinu. Það var dýrmætt fyrir mig að vera ekki búin að týna íslenskunni alveg þegar ég flutti hingað aftur, eftir að hafa ekki átt heima á Íslandi öll þessi ár. Mér var sagt þegar ég flutti til Íslands að ég væri svokallaður snúbúi, eða sá sem snýr aftur heim. Mér finnst þetta mjög skemmtilegt orð,“ segir Kristín R. Vilhjálmsdóttir, verkefnastjóri fjölmenningar í Borgarbókasafninu, sem flutti aftur til Íslands fyrir sex árum eftir að hafa alist upp í Danmörku og búið þar í þrjátíu ár.

„Ég er því tvítyngd og mér finnst mikil gjöf að eiga tvö tungumál. Vissulega fylgdi því þó nokkur krísa að skilgreina mig þegar ég flutti til Íslands, hvort ég væri dönsk eða íslensk. Ég talaði ekki móðurmálið mitt íslenskuna dags dagslega í þessi þrjátíu ár, en frá því ég flutti heim hefur íslenskan mín batnað mikið og það skiptir miklu máli. Mitt hjartans tungumál er danska, ég tel og ég blóta á dönsku. Danskan er sterkur hluti af minni sjálfsmynd.“

Til að skapa forvitni

Í tilefni af móðurmálsvikunni stendur Borgarbókasafn fyrir sögustund á morgun í Gerðubergi fyrir börn á tíu tungumálum. „Þetta er opið fyrir alla en við hvetjum leikskólana í hverfinu til að koma og njóta þess að hlusta á öll þessi tungumál. Og þar sem margir grunnskólar eru í vetrarfríi núna þá er tilvalið fyrir fjölskyldur að koma og njóta. Sumar sögurnar verða lesnar upp í hinum ævintýralega sögubíl Æringja og þeir sem lesa upp eru kennarar úr samtökunum Móðurmál, en þar fer fram móðurmálskennsla í fjölþjóðastarfi. Þar eru kennd fimmtán tungumál. Sögurnar verða á víetnömsku, frönsku, tékknesku, spænsku, portúgölsku, pólsku, litháísku, lettnesku, ensku og íslensku. Tilgangurinn með sögustundinni er að leyfa börnum að hlusta á sitt annað heimamál, en það er ekki síður gaman að börn almennt fái að heyra á margbreytileika tungumála. Við viljum skapa forvitni barna í tengslum við tungumál og vekja áhuga þeirra á að læra tungumál.“

Sannkölluð tungumálaherferð Cafe Lingua

Kristín hefur nóg á sinni könnu sem verkefnastjóri fjölmenningar, því hún stendur líka fyrir Café Lingua einu sinni í viku, sem hún segir vera vettvang fyrir þá sem vilja efla tungumálakunnáttu sína. „Þetta er staður fyrir orð, spjall og samskipti á hinum ýmsu tungumálum, sem og gátt inn í mismunandi tungumála- og menningarheima. Við virkjum bæði félög og einstaklinga til að sjá um dagskrána, sem er síbreytileg. Ég hef fundið fyrir áhuga meðal hins almenna borgara, að láta tungumálin sameina okkur. Tungumál geta verið ótrúlega sterk lína til að tengja saman fólk. Café Lingua var fyrst aðeins á Borgarbókasafni, en við erum komin í samstarf við stofnanir sem vinna á hverjum degi með tungumál og menningu. Café Lingua er því líka í Bíó Paradís, í Háskóli Íslands og í Menningarmiðstöðinni í Gerðubergi. Það er sannkölluð tungumálaherferð að hafa Cafe Lingua á mörgum stöðum. Við verðum sterkari með því að vinna saman.“ Í tilefni móðurmálsviku verður viðburður hjá Café Lingua sem heitir Albönsk tunga og menning, á laugardaginn í Gerðubergi, en þá verður Vatra, félag Albana á Íslandi með kynningu á landi og þjóð frá ýmsum sjónarhornum.

Tungumál gefa okkur rætur og vængi

Kristín stendur líka fyrir menningarmótsverkefni sem heitir Fljúgandi teppi, en það fer fram í leik-, grunn- og framhaldsskólum. Á menningarmótum fá nemendur, foreldrar og starfsfólk tækifæri til að hittast og kynna sína persónulegu menningu, sem tengist ekki endilega þjóðarmenningu. Allir eru þátttakendur og áhorfendur um leið. „Ég bjó til þetta verkefni þegar ég starfaði sem kennari í Danmörku, en ég hef þróað það og aðlagað íslensku samfélagi. Mér finnst það mikill fjársjóður fyrir samfélagið að í því búi fólk sem talar mörg tungumál. Í íslenska skólakerfinu eru núna ótal mörg börn sem eru fjöl- eða tvítyngd og við eigum að líta á það sem kost, það er styrkleiki fyrir Ísland að hér búi svona fjölbreytt fólk. Á Íslandi eru töluð yfir hundrað tungumál, frá mörgum heimsálfum. Þetta er gott að nýta í tungumálakennslu í skólunum og ég hef einmitt verið að þróa menningarmótin í þá átt. Ég fékk til dæmis tvítyngda nemendur sem voru með spænsku sem móðurmál í Austurbæjarskóla til að taka þátt í menningarmóti í spænskukennslu, þau kynnti spænska menningu á spænsku. Tvítyngdu börnin fengu að njóta þess að tala sitt móðurmál og íslensku krakkarnir nutu þess að heyra hvernig alvöru spænska er töluð. Frábært fyrir alla og skapar raunverulegan vettvang fyrir samskipti. Tungumál gefa okkur rætur og vængi, hvort sem um er að ræða móðurmál eða önnur mál sem við tileinkum okkur. Móðurmálin eru rætur sjálfsmyndindarinnar og þau erlendu mál sem við lærum gefa okkur vængi og skapa meðal annars tengsl okkar og samskipti við heiminn. En svo er líka hægt að hugsa þetta öfugt, því ný tungumál gefa okkur nýjar rætur og góð tök á móðurmálinu senda hugann á flug.“

Móðurmálsvikan

Íslenska UNESCO-nefndin og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum efna til nokkurra viðburða vikuna 21.-28. febrúar í tilefni Alþjóðadags móðurmálsins:

Í tilefni þessa dags í ár verður vakin athygli á starfi fjölmargra aðila sem tengjast ólíkum móðurmálum, hvatt til umræðu í skólum um hvernig sé hægt að koma til móts við nemendur sem tala annað móðurmál en íslensku og myndböndum um efnið komið á framfæri.

Tungumálaforða Íslands leitað í skólum landsins: Efnt verður til samvinnu við skóla um skráningu á tungumálaforða sínum, og haldinn verður sérstakur fyrirlestur um ólík móðurmál í skólakerfinu. www.tungumalatorg.is.

Sögustund fyrir börn á 10 tungumálum: Gerðuberg í dag, föstudag 21. febr. kl. 13-15.

Danska sem móðurmál, annað mál og erlent mál: Fyrirlestur dr. Bergþóru Kristjánsdóttur, lektors við Árósaháskóla.

Oddi, Háskóla Íslands fimmtudag 27. febr. kl. 16.

Móðurmál – mál málanna: Málþing í Norræna húsinu föstudag 28. febr. kl. 15-17:

Hólmfríður Garðarsdóttir: Tungumál eru sameign okkar allra – ræktum þau!

Renata Emilsson Pesková: Öll mál skipta máli – en fyrir hverja?

Hanna Ragnarsdóttir: Tungumál sem auðlind – fjölbreyttir kennarahópar.

Þorbjörg Þorsteinsdóttir: Dýrmætur tungumálaforði.

Kristín á góðri stund að spjalla við gesti Café Lingua.
Kristín á góðri stund að spjalla við gesti Café Lingua. mbl.is
Börnin njóta þess að taka þátt í menningarmótinu.
Börnin njóta þess að taka þátt í menningarmótinu. mbl.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert