Kötturinn Valdimar í sjúkraþjálfun

Valdimar þurfti að fara í sjúkraþjálfun eftir fótbrot
Valdimar þurfti að fara í sjúkraþjálfun eftir fótbrot Hrafnista

Hefðarkötturinn Valdimar lifir í góðu yfirlæti á hjúkrunarheimili Hrafnistu í Kópavogi þar sem heimilismenn dekra við hann öllum stundum. Valdimar getur þó verið óheppinn og þurfti á dögunum sjálfur á hjúkrun á halda. „Það veitir heimilismönnum ómælda gleði að fylgjast með honum,“ segir Rebekka Ingadóttir, deildarstjóri Hrafnistu.

Valdimar var ættleiddur á Hrafnistu frá Kattholti síðastliðið haust. „Hann hafði verið þar í hálft ár og enginn vitjað hans. Hann átti rosalega bágt í fyrstu eftir að hann kom til okkar og slapp meðal annars út og týndist. Hér var öllu til tjaldað við leitina og við náðum honum sem betur fer aftur,“ segir Rebekka.

Hún segir Valdimar vera yndislegan kött sem njóti þess að vera innan um fólkið á Hrafnistu. „Hann fer bara inn á hvaða herbergi sem er og kemur sér fyrir uppi í rúmi. Þau vilja stundum ekkert trufla hann og gefa honum bara plássið sitt. Einn einstaklingur sem býr á deildinni lokar vanalega herbergi sínu þegar hann fer í mat, en Valdimar fer alltaf og krafsar í hann þar til hann kemur og opnar fyrir honum,“ segir hún.

Þurfti sjúkraþjálfun eftir fótbrot

Rebekka segir Valdimar vera óhappakött en hann fótbrotnaði um daginn. „Allt í einu steig kötturinn ekki í fótinn og þá þurfti auðvitað að senda starfsmann af deildinni með hann á dýraspítalann. Þá reyndist hann vera brotinn og þurfti að fara í gifs greyið.“ Ekki var síður hugsað um Valdimar en aðra heimilismenn því hann var hafður undir ströngu eftirliti og sendur í endurhæfingu. „Sjúkraþjálfarinn okkar prófaði að setja hann á bretti og hjól, en hann var nú ekkert voðalega ánægður með það,“ segir Rebekka glettin.

„Að hafa dýr á hjúkrunarheimili er ofboðslega gefandi, bæði fyrir þá sem búa hér og vinna. Þeir sem ekki eru hrifnir af köttum sleppa því bara að sinna honum, en það er nú reyndar þannig að allir eru orðnir mjög hrifnir af honum Valdimar, hvort sem þeir eru kattavinir eða ekki.“

Dýralífið er fjölskrúðugt á Hrafnistu í Kópavogi, því ásamt Valdimari búa þar einnig kötturinn Tinna kúr og lítill páfagaukur. Þá bjó þar einnig annar köttur áður en Valdimar kom til sögunnar en sá fékk krabbamein. „Það var mikil sorg þegar hann dó. Við erum með myndir af honum uppi á vegg. Eftir að hann fór spurði fólkið mikið hvort það fengi ekki annan kött. Þá fengum við Valdimar og þau eru svo ótrúlega ánægð með hann. Hér er vel um hann hugsað og hann strýkur sér upp við þau og situr löngum stundum í fangi þeirra,“ segir Rebekka.

Valdimar er vinsæll á Hrafnistu.
Valdimar er vinsæll á Hrafnistu. Hrafnista
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka