Verstu skipulagsmistök síðustu áratuga í Reykjavík

Á myndinni til vinstri sést útsýnið frá Skólavörðuholti niður Frakkastíg …
Á myndinni til vinstri sést útsýnið frá Skólavörðuholti niður Frakkastíg að Sólfarinu eins og það er í dag. Hægra megin sést hvernig útsýnið, eða sjónlínan, yrði þegar framkvæmdum við háhýsið yrði lokið. Samsett mynd/Jon Kjell Seljeseth

Framkvæmdir við háhýsi í Skuggahverfi við Skúlagötu hafa ekki komið inn á borð umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar þar sem byggingarleyfi hafa byggst á deiluskipulagi sem hefur áður verið samþykkt. Að sögn Hjálmars Sveinssonar, fulltrúa Samfylkingarinnar í ráðinu, er turnabyggðin við Skúlagötuna ein verstu skipulagsmistök síðustu áratuga í borginni.

Framkvæmdir við minni turn af tveimur sem eiga að rísa við Lindargötu 39 og Skúlagötu 22 eru hafnar en eins og kom fram í Morgunblaðinu í gær mun háhýsið breyta götumynd Frakkastígs umtalsvert og skyggja á útsýni frá Skólavörðuholti niður götuna að sjónum.

Veruleg neikvæð áhrif

Við hrunið fóru framkvæmdir á svæðinu á ís og segir Hjálmar að menn hafi ef til vill ekki verið vakandi fyrir því þegar þær fóru af stað aftur og það hafi komið flatt upp á hann sem hafi talið að varla yrði haldið áfram með sama byggingarmagn og í fyrstu var lagt upp með.

Hann hafi jafnframt ekki gert sér grein fyrir hversu mikið turninn skemmdi sjónlínuna í götunni fyrr en hann sá mynd af honum, séðum frá Frakkastíg, í blaðinu í gær.

„Mér finnst þetta alveg hörmulegt því að þetta er einstaka fallegur sjónás niður Frakkastíginn og listaverkin tvö, Sólfar [við Sæbraut] og Leifur heppni á Skólavörðuholti kallast fallega á,“ segir hann.

Þegar deiliskipulagi var breytt árið 1989 stóð til að fjarlægja hlykk sem er á neðsta hluta Frakkastígs og gera götuna beina alla leið niður að Skúlagötu. Af því varð þó aldrei er því ekki er nóg með að turninn skagi út úr húsalínunni við Frakkastíg núna heldur rís hann langt upp fyrir hana að sögn Hjálmars.

„Hann hefur því verulega neikvæð áhrif á þessa fallegu sjónlínu. Mín skoðun er að þessi stóra turnabygging við Skúlagötuna séu ein verstu skipulagsmistök borgarinnar síðustu áratugi. Á sínum tíma þótti þetta mjög smart en í dag held ég að langflestir séu sammála um að þetta er alltof stórt og tekur of lítið tillit til gömlu Reykjavíkur með fíngert mynstur og fallegar götulínur og sjónása,“ segir hann.

Ekki mögulegt aftur

Hætt er við því að lítið sé hægt að gera í málinu úr því sem komið er en Hjálmar segir þó að málið hafi verið rætt óformlega innan meirihlutans. Útilokað sé þó að álíka mistök verði gerð aftur þar sem í nýsamþykktu aðalskipulagi sé ekki heimild fyrir frekari turnbyggingum á miðborgarsvæðinu.

Breytingar ekki útilokaðar

Byggingarleyfi fyrir turnana tvo sem á að reisa við Lindargötu 39 og Skúlagötu 22 voru samþykkt í janúar sl. og 2012 í samræmi við deiliskipulag frá árinu 2006. Leyfin eru samþykkt af byggingarfulltrúa og fara ekki fyrir pólitísk ráð borgarinnar nema til afgreiðslu.

„Það er margt gagnrýnivert við þetta skipulag og óheppilegt að það hafi gerst,“ segir Björn Stefán Hallsson, byggingarfulltrúi Reykjavíkurborgar.

Hann segir ekkert útilokað með það að breyta áætlunum ef nægur vilji sé fyrir hendi þrátt fyrir að framkvæmdir séu þegar hafnar. „Þeir eru ekki komnir upp úr jörðinni. Það er ekkert orðið raunverulegt fyrr en það er klárað,“ segir Björn.

Pólitískan áhuga þyrfti fyrir því að endurskoða málið því byggingarleyfi séu gefin út í samræmi við gögn sem séu lögformlega frágengin.

Frétt mbl.is: Nýbygging skyggir á sjónlínu

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert