Hætta milligöngu um miðasölu að Geysi

Ferðamenn við Geysi.
Ferðamenn við Geysi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Verslunin og veitingasalan á Geysi í Haukadal hefur hætt milligöngu um sölu aðgöngumiða að hverasvæðinu á Geysi. Eigendur verslunarinnar tóku þessa ákvörðun þar sem þeir vilja halda sig til hlés í deilum um gjaldtöku inn á svæðið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá eigendum verslunarinnar á Geysi.

Landeigendur hófu að rukka fyrir aðgang að svæðinu 15. mars og eru aðgöngumiðar seldir af sölufólki við innganginn að svæðinu. Aðgöngumiðar voru upphaflega einnig seldir í afgreiðslu verslunar- og veitingasölunnar, enda er hún mikilvæg þjónustumiðstöð á Geysis-svæðinu, en í ljósi þess að lagaleg óvissa ríkir um réttmæti gjaldtökunnar þá hefur því nú verið hætt, segir í tilkynningunni.

Eigendur verslunarinnar Geysir leggja áherslu á að ferðamenn fái jákvæða upplifun af Geysissvæðinu um leið og sátt verði að ríkja um umgang ferðafólks um þessa mikilvægu náttúruperlu þjóðarinnar. Tryggja þarf öryggi ferðamanna sem koma til Íslands og að þeir hafi sem bestan aðgang að þeim svæðum sem þeir vilja heimsækja um leið og þess er gætt að umferðin leiði ekki til varanlegra skemmda á náttúru eða umhverfi.

Verslunin á Geysi í Haukadal er í eigu Geysir Shops ehf. sem er sjálfstætt einkahlutafélag. Það tengist ekki Landeigendafélagi Geysis og hefur enga aðkomu að ákvörðunum um gjaldtöku á svæðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina