Nýló vísað á dyr

Þorgerður Ólafsdóttir, formaður stjórnar Nýló.
Þorgerður Ólafsdóttir, formaður stjórnar Nýló. mbl.is/Nýló

Í tilkynningu um sýninguna á verkum Hreins Friðfinnssonar í Nýlistasafninu kemur fram að hún verði sú síðasta í húsnæði safnsins við Skúlagötu. Nýkjörinn formaður stjórnar Nýló, Þorgerður Ólafsdóttir, staðfestir að svo sé. Eigendur húsnæðisins, fasteignafélag í eigu Arion banka, ákváðu að tvöfalda leiguverð í sumar, sem hún segir brjóta allmikið í bága við loforð sem gefin hafi verið.

„Þeir tilkynntu okkur að markmiðið væri svo að fá milljón á mánuði, sem er óeðlilega mikil hækkun í ljósi þess hversu gallað rýmið er enn þann dag í dag,“ segir Þorgerður. Leigan hefur nú verið um kr. 400.000.

Þorgerður segir tilraunir stjórnar Nýló og lögmanna hennar til áframhaldandi samningsgerðar ekki hafa gengið og hafi samskipti við eigendur húsnæðisins valdið vonbrigðum. 

Nú hefur verðmætri og umfangsmikilli safneign Nýlistasafnsins því verið pakkað niður og staflað á bretti og bíður eftir því að verða flutt í húsnæði, sem að öllum líkindum verður leigt af Reykjavíkurborg.

„Það sem skemmir safnmuni er óþarfa tilfærsla og flutningur og er því augljóst mál að koma þarf Nýló af almennum leigumarkaði. Um leið og samlegðaráhrif safnsins höfðu staðið fyrir sínu og götulengjan hér við Skúlagötu lifnað við, eins og raunin varð, vildu eigendur skipta um leigutaka. Fermetraverðið var orðið mun hagstæðara vegna vinnu og seguláhrifa Nýló og annarrar starfsemi hér, sem missir einnig húsnæðið. Gömul saga og ný, og alltaf jafn ófrumleg og leiðigjörn,“ segir Þorgerður.

Ítarlega er fjallað um málið í sunnudagsblaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert