Brennu-Njálssaga besta íslenska verkið

Úrslit í vali Kiljunnar á íslenskum öndvegisritum liggja nú fyrir en Brennu-Njálssaga vermir efsta sætið, en höfundur hennar er ókunnur. Í öðru og þriðja sæti eru skáldsögurnar Sjálfstætt fólk og Íslandsklukkan sem eru báðar eftir Halldór Laxness.

Ljóðmæli eftir Jónas Hallgrímsson er í fjórða sæti og Egilssaga í því fimmta, en talið er mögulegt að Snorri Sturluson sé höfundur verksins.

Nýjasta verkið er bókin Englar alheimsins eftir Einar Má Guðmundsson, en hún er í sjötta sæti.

Á aðallistanum eru samtals 150 verk en aðeins 15 bækur eru eftir konur. Sagan Jón Oddur og Jón Bjarni, eftir Guðrúnu Helgadóttur, er efst þeirra, eða í 14. sæti.

Á listanum er jafnframt að finna 20 ljóð, 10 ævisögur og 12 barnabækur.

Þátttakan í vali Kiljunnar, bókmenntaþætti Egils Helgasonar, sem er sýndur á RÚV, var afar góð, en alls bárust 620 svör. Þátttakendum gafst kostur á að velja 20-30 bókmenntaverk, skáldsögur, fornrit, leikrit, ljóð, barnabækur og hvaðeina úr allri bókmenntasögunni, frá upphafi til okkar daga, að því er segir í tilkynningu.

„Könnunin gefur nokkuð góða mynd af bókmenntasmekk Íslendinga sem hafa áhuga á bókum - og horfa á þátt eins og Kiljuna.

Hér er birtur einn aðallisti, en einnig eru teknir saman sérstakir listar með verkum eftir lifandi höfunda, bókum eftir konur, barnabókum, ljóðum, leikritum, ævisögum og svo er sérstakur listi yfir verk Halldórs Laxness,“ segir í tilkynningu.

Kiljan á Facebook

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert