Lagni er það sem skiptir máli í rúningi

Þrefaldi Íslandsmeistarinn Julio (fremst á mynd) sigraði í rúningskeppni á …
Þrefaldi Íslandsmeistarinn Julio (fremst á mynd) sigraði í rúningskeppni á Kex hosteli í vor. Ljósmynd/Tjörvi Bjarnason

Fjórir rúningsmenn flugu sl. þriðjudag til Írlands sem fulltrúar Íslands til að taka þátt í heimsmeistarakeppni í rúningi. Allir starfa þeir við rúning hluta úr árinu og einn liðsmaðurinn er þrefaldur Íslandsmeistari. Starf rúningsmanns krefst félagslegrar hæfni og tilþrifin hafa heillað marga konuna í gegnum tíðina.

Þetta verður mikil upplifun og gaman að fá að taka þátt í þessu. Ég býst við að við verðum látnir rýja kollótt fé af skoskum eða írskum uppruna, þær eru eflaust þægari en þær íslensku sem eru sumar erfiðar, með hart skap og sterkar,“ segir Trausti Hjálmarsson, bóndi í Austurhlíð í Biskupstungum, en hann hélt ásamt þremur öðrum rúningsmönnum til Írlands fyrr í vikunni til að etja kappi við rúningsmenn hvaðanæva úr heiminum í heimsmeistarakeppni í rúningi.

„Þetta er í fyrsta sinn sem lið rúningsmanna fer frá Íslandi til að taka þátt í heimsmeistaramóti, en við sáum okkur ekki annað fært en að búa til lið fyrst okkur bauðst þetta. Við gátum ekki látið tækifærið okkur úr greipum ganga, og fyrir tilstilli fjölskyldu og vina sem leysa okkur af heima í sauðburðinum þá getum við farið,“ segir Trausti og bætir við að liðsstjóri þeirra sé Guðmundur Hallgrímsson og að Borgar Pàll Bragason hafi séð um öll samskipti við útlönd.

Tvö hundruð keppendur

Landsliðið skipa ásamt Trausta, þeir Julio Cesar Gutierrez, bóndi á Hávarsstöðum II í Leirársveit, Hafliði Sævarsson, bóndi í Fossárdal og Reynir Þór Jónsson frá Hurðarbaki. Á heimsmeistaramótinu verður keppt í vélrúningi, ullarflokkun og handrúningi upp á gamla mátann.

 „Við munum eingöngu taka þátt í vélrúningnum. Þetta er tvískipt mót, tveir okkar keppa á fyrra mótinu sem verður í dag en hinir tveir keppa á seinna mótinu á laugardaginn, hinu eiginlega heimsmeistaramóti. Við ætlum að sjálfsögðu að gera okkar besta og við erum með þrefaldan Íslandsmeistara í liðinu, hann Julio. Þetta verður hörð keppni, rúmlega tvö hundruð keppendur taka þátt og megnið af þeim er menn sem vinna við rúning allt árið um kring, en við Íslendingarnir vinnum ekki við þetta nema sex til átta vikur á ári. Við förum fyrst og fremst af forvitni, til að sjá hvernig þetta fer fram, skoða og upplifa,“ segir Trausti og bætir við að Lilja Grétarsdottir kona Julios sé túlkur í ferðinni.

Tækni sem fólk beitir við rúninginn, er ólík eftir því hvaðan úr heiminum það er. „Julio klippir til dæmis öðruvísi en við Íslendingarnir, hann hefur annað lag og heldur kindinni öðruvísi en við. Hann teygir meira á skrokk kindanna þegar hann er að rýja, opnar þannig ullina betur frá skrokknum og beitir klippunum öðruvísi en við. Hann lærði rúning í sínu heimalandi, Úrúgvæ, og hann vann þar við rúning áður en hann flutti til Íslands. Algengasta aðferðin er sú sem kennd er við Nýja-Sjáland og hún er langmest notuð hér á landi, slík aðferð hefur verið kennd hér frá því á áttunda áratugnum.“

Í góðu líkamlegu formi

Þegar Trausti er spurður að því hvort rúningsmaður þurfi að vera sterkur og hvort margar konur vinni við vélrúning, segir hann sumar konur að sjálfsögðu rýja sjálfar sitt fé.

„Heiða Guðný Ásgeirsdóttir í Skaftafellssýslu er eini kvenkyns rúningsmaðurinn hér á landi sem ég veit til að starfi við rúning. Rúningsstarfið krefst fyrst og fremst lagni við að halda kindinni á réttum punktum. Ef hún liggur rétt og finnur ekki til á meðan hún er rúin, þá þarf rúningsmaðurinn ekkert endilega að vera sterkur, en hann þarf vissulega að vera í þokkalega góðu líkamlegu formi. Það skiptir líka miklu máli að standa rétt, vera ekki í skóm með hæl heldur flatbotna svo staðan á hryggnum og niður í fætur sé rétt, og að maður beygi sig í mjöðmum frekar en baki. Ef menn beita sér rétt þá geta þeir enst lengi í starfinu, hinn nýsjálenski Darrel hafði verið að klippa í átján ár þegar hann kom hingað fyrst fyrir margt löngu og hann er enn að klippa.“

Bæði raunir og gleði

Trausti byrjaði að klippa fyrir sextán árum og hefur gert það árlega allar götur síðan. Hann segir starf rúningsmannsins skemmtilegt en líka nokkuð sérstakt. 

„Ég hef stundum sagt í gríni og alvöru að rúningsmaður þurfi að vera sálfræðingur og vera tilbúinn að koma inn á heimili og vera opinn fyrir því sem þar mætir honum. Hann þarf að hlusta á það sem brennur á þeim sem hann heimsækir, bæði raunir og gleði. Þegar maður er úti í fjárhúsi með fólki og inni á heimili þess, þá kynnist maður því hraðar og meira en annars væri. Þetta er ákveðin nánd í stuttan tíma og hver bóndi er með sína sérvisku, maður þarf að vera fljótur að lesa manninn, til að vita hvað má og hvað ekki, hvernig maður á að haga sér. Rúningsmenn eru orðnir svo fáir að það er mikil ánægja hjá fólki að fá þá til sín, fólk verður svo glatt og þakklátt. Það er einmitt kosturinn við þetta starf, manni finnst maður alltaf vera að gera vel fyrir fólk. Þetta er þjónustustarf og maður verður að hugsa það sem slíkt svo þetta gangi upp,“ segir Trausti sem klippir tvö til þrjú hundruð kindur á dag ef féð er í snoði eða haustull, en hundrað til hundrað og fimmtíu ef þær eru í alull.

Ágangur kvenna

Gera má ráð fyrir að ungar heimasætur gleðjist þegar rúningsmenn koma á bæinn og þær fá að fylgjast með þeim dagana langa svitna við rúninginn. Þegar Trausti er spurður að því hvort svo karlmannlegt starf sem rúningsmannsstarfið er, verði ekki til þess að þeir þurfi að verjast ágangi kvenna, hlær hann við og svarar:

„Þær hafa nú kannski ekki leitað á mann akkúrat í starfinu, en ég náði vissulega í mína konu í kjölfar þess að ég kom hingað í Austurhlíð að rýja á sínum tíma. Ég heillaði hana væntanlega upp úr skónum með tilþrifunum í rúningnum. Nú erum við bæði bændur hér og eigum þrjú börn.“

Trausti í fjárhúsinu með tveimur af þremur börnum sínum, hér …
Trausti í fjárhúsinu með tveimur af þremur börnum sínum, hér nokkuð þreytt í sauðburðinum eins og gjarnan vill vera á þessum árstíma.
Hér eru þeir mættir til Írlands garparnir og reiðubúnir til …
Hér eru þeir mættir til Írlands garparnir og reiðubúnir til átaka. Guðmundur lengst til vinstri, þá Julio, Hafliði, Reynir og Trausti.
Trausti að rýja hrút í alull með aðstoð félaga síns, …
Trausti að rýja hrút í alull með aðstoð félaga síns, Egils Jónassonar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert