Ármann áfram bæjarstjóri

Nýr meirihluti Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokks var kynntur í Kópavogi í dag. Ármann Kr. Ólafsson, oddviti Sjálfstæðisflokks, verður áfram bæjarstjóri. Formaður bæjarráðs verður Theódóra S. Þorsteinsdóttir, oddviti Bjartrar framtíðar og forseti bæjarstjórnar verður Margrét Friðriksdóttir sem skipaði annað sæti á lista Sjálfstæðisflokksins.

Mikil áhersla verður lögð á skólamál í bænum með nýtingu upplýsingatækni í skólum að leiðarljósi. Í fréttatilkynningu segir að stefnt verði að því að skólar í Kópavogi verði í fremstu röð skóla á landinu.

Þá verður leitast við að auka áhrif íbúanna og virkja þá í ákvarðanatöku í bænum. Bókhald bæjarins verður opið þannig að íbúar munu eiga hægt um vik að fylgjast með því hvernig peningum bæjarins er varið. 

Áhersla verður lögð á lýðheilsumál munu eldri borgarar og börn tíu ára og yngri frá frítt  í sund.

Jafnari kynjahlutföll

„Það eru spennandi tímar framundan í Kópavogi, hér er nýr kafli að hefjast í sögu bæjarins með nýju fólki. Ég er mjög ánægð með það að stefna okkar hafi fengið hljómgrunn og sérlega ánægð með jafnari kynjahlutföll en í tíð fyrri bæjarstjórnar,“ segir Theódóra S. Þorsteinsdóttir oddviti Bjartrar framtíðar í Kópavogi og nýr formaður bæjarráðs.

„Ég er stoltur af því að hafa myndað meirihluta með Bjartri framtíð, þann fyrsta sem að flokkurinn á aðild að á sveitarstjórnarstiginu. Það fylgja ferskir vindar þessum nýja meirihluta, fyrstu dagarnir lofa góðu og ég er afar bjartsýnn á framhaldið,“ segir Ármann Kr. Ólafsson oddviti Sjálfstæðismanna í Kópavogi sem gegna mun starfi bæjarstjóra líkt og undanfarin tvö ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert