Stórbruninn í Skeifunni í gærkvöldi er að minnsta kosti fjórði stórbruninn á höfuðborgarsvæðinu frá árinu 2000. Jafnframt áttu sér stað þrír stórir brunar í Reykjavík á 20. öld. Brunarnir eru af fjölbreyttum toga og hafa sumir þeirra breytt ásýnd borgarinnar um ókomin ár. Þeir eiga allir það þó sameiginlegt að þeir skilja eftir sig gífurlegt tjón.
Sá stórbruni sem hafði hugsanlega mest áhrif á Reykjavík átti sér stað í lok apríl 1915. Eldurinn kom upp í Hótel Reykjavík við Austurstræti og brann það á svipstundu ásamt húsinu sem sem var áfast við það. Ellefu hús fylgdu í kjölfarið og var tjónið gífurlegt. Tveir menn létust í eldinum, Runólfur Steingrímsson, vinnumaður á Hótel Reykjavík og Guðjón Sigurðsson úrsmiður en hann lést er það kviknaði í húsi hans Ingólfshvoli.
Eldurinn kom upp um klukkan 3 að nóttu. Hann kviknaði út frá gaslampa á Hótel Reykjavík sem stóð við Austurstræti 12. Gassprenging varð í húsinu í kjölfarið og eldurinn breiddi úr sér.
Bruninn hafði söguleg áhrif enda gjörbreytti hann ásýnd miðbæjarins.Samkvæmt grein sem birtist á mbl.is 10. mars 2013 varð bannað að byggja úr timbri eftir brunann og öll hús skyldu vera úr steini. Einnig var sett ákvæði í byggingareglugerð um að ekki mætti byggja timburhús nema þau stæðu stök.
Þann 18. júlí 1963 myndaðist hættuástand við Rauðarárstíg vegna stórbruna í gasstöðinni Ísaga. Verksmiðjan Ísaga framleiddi súrefni og gas í tveim aðskildum verksmiðjuhúsum og kom eldurinn upp í þeirri sem framleiddi gas.
Samkvæmt frétt Morgunblaðsins 19. júlí 1963 urðu miklar skemmdir á húsunum í kringum brunann og fólk flúði íbúðir sínar í nágrenninu, en járn- og steinflykki flugu langar leiðir og stafaði stórhætta frá því. Jafnframt brotnuðu rúður í nágrenninu, m.a. í húsum við Rauðarárstíg og Njálsgötu, svo mikill var loftþrýstingurinn vegna sprenginganna.
Að sögn Morgunblaðsins safnaðist fjöldi manns við eldinn til þess að fylgjast með en var haldið aftur af lögreglu, enda gífurleg hætta sem myndaðist við sprengingarnar. Í Morgunblaðinu þann dag segir m.a. „...lífshætta var að koma nálægt, enda flugu sprengjubrot hundruð metra frá brunastað og má telja hreint lán að ekki hlaust slys af.“
Slökkviliðið var rúma tvo tíma að ráða niðurlögum eldsins. Milljónatjón hlaust af brunanum og í kjölfarið þurfti að byggja aðra gasstöð við Breiðhöfða.
Þann 4. janúar 1989 varð hundraða milljóna króna tjón en eldur kom upp í Gúmmívinnustofunni við Réttarháls. Fyrirtækið eyðilagðist algjörlega auk þess að sex önnur fyrirtæki sem störfuðu í húsinu og viðbyggingu þess skemmdust mikið. Húsnæðið sem eyðilagðist var fimm þúsund fermetrar.
Samkvæmt frétt Morgunblaðsins daginn eftir kviknaði eldurinn um klukkan 15 og var því starfssemi Gúmmívinnustofunnar í fullu gangi er eldurinn hóf að breiðast út. Starfsmenn fyrirtækisins áttu fótum sínum fjör að launa, en einn þeirra slasaðist minniháttar er hann hlaut brunasár á höndum og í andliti. Um 20 mínútum eftir að eldurinn var tilkynntur sprungu tveir gaskútar í húsnæðinu sem æstu eldinn mjög.
Allt tiltækt lið slökkviliðsins var kallað úr ásamt liðsauka frá Reykjavíkurflugvelli og Hafnarfirði, en slökkviliðið náði hins vegar ekki tökum á eldinum. Að sögn Hrólfs Jónssonar,varaslökkviliðsstjóra hefði öflug úðakerfi í húsinu verið það eina sem hefði getað bjargað í brunanum, en það var ekki til staðar. „Okkar slökkvilið með okkar mannskap og tækjabúnað ræður ekki við bruna af þessari stærðargráðu,“ sagði Hrólfur ennfremur.
Samkvæmt grein sem birtist í Morgunblaðinu 2004 kom í ljós við rannsókn brunans að brunarvarnir í húsinu voru ekki í lagi og hafði Eldvarnareftirlitið gert athugasemdir nokkru áður. Til dæmis var steinveggur milli Gúmmívinnustofunnar og viðbyggingarinnar, þar sem hin fyrirtækin voru til húsa, sem hefði átt að stöðva eldinn, en rannsókn leiddi í ljós að rofið hafði verið gat á milli húsanna tveggja án þess að setja upp eldvarnarhurð.
Þann 7. ágúst 2002 var allt tiltækt lið slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins kallað út að verslunar- og lagerhúsnæði við Fákafen 9, en þar hafði kviknaði í lager verslunarinnar Teppalands í kjallara hússins.
Eldurinn breiddist hratt um lagersvæði verslunarinnar og varð strax ljóst að tjónið væri gífurlegt, en á annan tug fyrirtækja ráku verslanir eða voru með vörulagera í húsinu, auk þess sem Reykjavíkurborg var með geymslurými í kjallaranum þar sem geymd voru verk í eigu Listasafns Reykjavíkur.
Samkvæmt frétt Morgunblaðsins starfaði slökkviliðið í gífurlega erfiðum aðstæðum. Reynt var að senda inn reykkafara sem þurftu frá að hverfa vegna hita en einnig var mikil hrunhætta. Í framhaldinu beindist starf slökkviliðsins að því að reyna að hindra útbreiðslu eldsins og jafnframt koma froðu niður í kjallarann þar sem eldurinn logaði. Yfir sólarhring tók að slökkva eldinn.
Það er mörgum í fersku minni þegar að það kviknaði í dekkja- og brotajárnshaug Hringrásar við Sundahöfn þann 22. nóvember 2004. Á svæðinu var tekið á móti ýmist brotamálmum, dekkjum og bílhræum og er því er ekki að furða gífurlegan eldinn sem myndaðist þegar það kviknaði þar í. Mikill og svartur reykur gnæfði yfir nágrenninu og þurftu um 500 manns að rýma heimili sín og sofa annars staðar um nóttina. Þeir sem gátu leituðu til vina og ættingja en einnig voru strætisvagnar kallaðir út sem keyrðu um 200 manns í Langholtsskóla þar sem fólk gat leitað skjóls.
Samkvæmt frétt Morgunblaðsins daginn eftir voru stórtækar hjólaskóflur voru strax fengnar á staðinn og unnu þær við að skipta haugnum þar sem eldurinn logaði. Einnig fékkst aðstoð frá dönsku varðskipi sem dældi upp sjó sem notaður var við að slökkva eldinn.
Fljótlega kom í ljós að Eldvarnareftirlitið hafi skrifað eigendum Hringrásar bréf í júní sama ár og eldurinn varð. Þar var m.a. bent á hættuna sem stafaði af dekkjahauginum á lóð fyrirtækisins. Fyrirtækið stóð ekki við að fjarlæga dekkin, en talið er að um tvö þúsund tonn af gúmmíi hafi verið í haugnum sem brann. Þetta kom fram í Morgunblaðinu 24. nóvember 2004.
„Gamla Reykjavík brennur“ var fyrirsögn forsíðufréttar Morgunblaðsins 19. apríl 2007, eftir að fornfrægu húsin á horni Austurstrætis og Lækjargötu urðu eldi að bráð. Húsið við Austurstræti 22 gjöreyðilagðist í eldinum og Lækjargata 2 stórskemmdist einnig. Þessi tvö hús mynduðu saman eina elstu varðveittu götumynd Reykjavíkur en húsin voru 150-200 ára gömul.
Strax í upphafi var talið að eldurinn hafi kviknað út frá loftljósi í söluturni sem stóð á milli bygginganna tveggja. Milli 80 og 100 manns störfuðu við slökkvistörf í um sjö klukkustundir. Tiltölulega vel gekk að ráða að niðurlögum eldsins í Lækjargötu en við Austurstræti þurfti að rífa þakið af húsinu til að ná til eldsins.
Engan sakaði í brunanum en margir voru við störf í húsunum er eldurinn kviknaði. Samkvæmt frétt Morgunblaðsins var unnið að endurbótum á veitingastaðnum Café Óperu við Lækjargötu þegar eldurinn kviknaði. Húsið stórskemmdist í brunanum og veitingastaðurinn opnaði ekki aftur. Jafnframt var skyndibitastaðurinn Kebab húsið í sama húsi. Skemmtistaðurinn Pravda var síðan til húsa við Austurstræti 22 sem gjöreyðilagðist. Óhætt er því að segja að eldurinn hafi haft áhrif á starfssemi fjölmargra fyrirtækja.
Í september 2008 veittu borgaryfirvöld leyfi fyrir því að húsið við Lækjargötu 2 skyldi vera tekið niður, en ekkert hafði verið hreyft við húsinu síðan í eldinum einu og hálfu ári áður. Húsið var endurbyggt undir eftirliti Minjastofnunnar. Einnig gáfu borgaryfirvöld leyfi fyrir því að fjarlæga skyldi í heilu lagi hlaðið eldstæði við Austurstræti, en það var það eina sem eftir stóð af húsinu eftir brunann.
Fjórum árum eftir brunann hlaut endurbygging húsana arkitektaverðlaun Philippe Rotthier stofnunarinnar árið 2011 fyrir bestu endurnýjun í borgum, bæjum eða byggingum í Evrópu síðastliðin fimm ár.