Veiddu samtals 137 langreyðir

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

„Við erum bara að hætta þessu. Hvalur 9 er hérna hjá okkur og Hvalur 8 er í Reykjavík. Þeir voru báðir að losa hjá okkur. Við erum bara að klára hérna.“

Þetta segir Gunnlaugur F. Gunnlaugsson, stöðvarstjóri í Hvalstöðinni í Hvalfirði, í samtali við mbl.is en hvalveiðivertíðinni hvað langreyðir varðar er lokið að hans sögn. „Við höfum yfirleitt reynt að halda þessu áfram fram yfir 20. september þegar það kemur bræla. Það spáir núna þriggja daga brælu.“

Spurður hvernig vertíðin hafi gengið lætur Gunnlaugur frekar vel af henni. „Þetta hefur gengið þokkalega vel,“ segir hann. Samtals hafi 137 langreyðir veiðst. En veður hafi sett strik í reikninginn í sumar. „Það hefur bara verið mikil ótíð hjá okkur.“ Hvalveiðiskipin fóru síðustu ferðina í gær að sögn Gunnlaugs og náðu strax tveimur dýrum hvort. „Þannig að það er nóg af þessu.“

Hrefnuveiðimenn hafa veitt 22 hrefnur í ár að sögn Gunnars Bergmann Jónsson. Það sé töluvert undir því lágmarki sem stefnt hafi verið að en veður hafi ekki síst sett strik í reikninginn. Hrefnuveiðum verði haldið eitthvað áfram fram á haustið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert