Skýrsla innkölluð vegna mistaka

Frá mótmælum á Austurvelli í kjölfar fjármálahrunsins.
Frá mótmælum á Austurvelli í kjölfar fjármálahrunsins. mbl.is/Ómar

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur innkallað þrjú eintök af skýrslu sem nefnist „Samtantekt á skipulagi lögreglu við mótmælin 2008 til 2011“sem afhent voru fjölmiðlum í dag, þar sem greina mátti texta sem búið var að sverta í skýrslunni. 

Lögreglan segir í tilkynningu, að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hafi kveðið upp úrskurð í framhaldi af kröfu einstaklings um að lögreglu bæri að afhenda „Samantekt á skipulagi lögreglu við mótmælin 2008 til 2011“. Í úrskurði sé komist að þeirri  niðurstöðu að lögreglu beri að láta af hendi samantektina þó með þeim fyrirvara að afmá skuli úr texta tilteknar upplýsingar.

„Lögregla afhenti þrjú eintök eftir að búið var að sverta umrædda texta í tölvutæku eintaki áður en samantektin var fjölfölduð til afhendingar. Í kjölfar afhendingar bárust upplýsingar frá þeim sem höfðu fengið eintak að undir sterku ljósi mætti eigi að síður greina textann. Þá þegar voru gerðar ráðstafanir til þess að  útbúa nýtt eintak þar sem tryggt var að texti væri afmáður og ný afrit  afhent. Þau afrit sem ekki uppfylltu það skilyrði að afmá texta með tryggum hætti verða  innkölluð. Þessi mistök eru hörmuð og jafnframt lögð áhersla á að úrskurður úrskurðarnefndarinnar um að halda ákveðnum tilvitnuðum upplýsingum leyndum, er bindandi fyrir þá sem fá afrit samantektarinnar afhentar. Fjölmiðlum er þakkaður heiðarleiki og trúnaður við niðurstöðu úrskurðarnefndar um upplýsingamál.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert