Varað við gosmengun í borginni

Mynd er úr safni og sýnir gosmengunarsý yfir Reykjavík.
Mynd er úr safni og sýnir gosmengunarsý yfir Reykjavík. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Veðurstofa Íslands telur líklegt að gasmengun geti síðdegis í dag og á morgun borist til höfuðborgarinnar vegna eldgossins í Holuhrauni. Mögulegt er að mengunar verði vart um tíma. Kemur þetta fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Styrkur brennisteinsdíoxíðs í loftgæðamælistöð  í Völundarhúsum í Grafarvogi var klukkan 15:30 um 480 míkrógrömm á rúmmetra. Líklegt er að gildi geti orðið þar og annars staðar há í Reykjavík.

Þegar styrkur brennisteinsdíoxíðs fer yfir 600 míkrógrömm á rúmmetra er fólki ráðlagt að forðast áreynslu utandyra. Fólki sem er viðkvæmt í lungum er jafnframt ráðlagt að fylgjast sérstaklega vel með loftgæðum.

Á heimasíðu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur má sjá kort yfir staðsetningu loftgæðamælistöðva í Reykjavík en þar er hægt að fylgjast með styrk brennisteinsdíoxíðs og annarra efna. Liturinn er grænn ef styrkurinn er undir heilsuverndarmörkum fyrir öll efni. Fari styrkur yfir heilsuverndarmörk breytist liturinn í gulan eða rauðan.

Sýndur er hæsti styrkur efna á hverjum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert