Flestir telja sig óörugga í miðbænum

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Rúmlega helmingur þeirra sem afstöðu tóku til könnunar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu telja sig óörugga í miðborg Reykjavíkur eftir að myrkur er skollið á eða eftir miðnætti um helgar.

Kemur þetta fram í skýrslu embættis ríkislögreglustjóra og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en könnunin var framkvæmd af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands í maí og júní á þessu ári. Er um að ræða könnun sem lögreglan hefur framkvæmt reglulega síðastliðin ár.

Í könnuninni var spurt: „Hversu örugg(ur) eða óöruggur(ur) finnst þér þú vera þegar þú gengur ein(n) í miðborg Reykjavíkur þegar myrkur er skollið á eða eftir miðnætti um helgar?“

Um 55 prósent svarenda töldu sig vera mjög eða frekar óörugga eina á gangi í miðborg Reykjavíkur eftir að myrkur er skollið á eða eftir miðnætti um helgar. Einungis um átta prósent svarenda töldu sig hins vegar mjög örugga.

Sem fyrr eru konur, eða 71%, mun líklegri en karlar til að segjast mjög eða frekar óöruggar eina á gangi, en 39% karla voru á sömu skoðun.

Svarendur á aldrinum 66 til 76 ára er óöruggasti hópurinn en fólk á aldrinum 18 til 36 ára eru líklegastir til að telja sig örugga.

Hlutfall þeirra sem eru óöruggir eykst eftir því sem viðkomandi býr lengra frá miðborginni.

Við gerð könnunar var tekið 4.000 manna tilviljunarúrtak fólks á aldrinum 18 til 76 ára af landinu öllu. Var um að ræða 2.000 manns á höfuðborgarsvæðinu og 2.000 manns á landsbyggðinni. Alls svöruðu 2.605 einstaklingar könnuninni, þar af 1.370 á höfuðborgarsvæðinu.

Svarhlutfallið var því 65 prósent fyrir landið allt, en 68,5 prósent fyrir höfuðborgarsvæðið. Niðurstöður ríkislögreglustjóra byggja á heildartölunum og eru svör þátttakenda greind eftir landshlutum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert