Hótað af andstæðingum íslam

Sigurður á fundi Siðmenntar.
Sigurður á fundi Siðmenntar. Ljósmynd/ Kristinn Theódórsson

Sigurður Hólm Gunnarsson hefur orðið fyrir barðinu á ógeðfelldum athugasemdum og hótunum jafnt á netinu sem og með beinum hætti vegna fyrirlesturs sem hann hélt á málþingi Siðmenntar á laugardaginn. Eina hótunina er erfitt að skilja sem annað en óbeina morðhótun en málþingið sem vakti svo mikla reiði bar yfirskriftina „Þurfum við að óttast íslam?“

„Svar mitt við þeirri spurningu var í raun og veru bæði já og nei. Auðvitað þyrfti allt friðelskandi og lýðræðislega þenkjandi fólk að óttast bókstafstrúarbrögð og bókstafstrú á íslam er mjög varasöm. Engu að síður benti ég einnig á að það væru ekki trúarbrögðin ein og sér sem bæri að varast heldur bókstafstrú almennt og líka þessi andúð sem virðist vera á einstaka þjóðfélagshópum,“ segir Sigurður.

Sigurður segir að hann vilji að litið sé á öll trúarbrögð og allar skoðanir gagnrýnum augum og að hann vilji ekki gefa þeim skoðunum sem tengjast trúarbrögðum neinn afslátt.

„Við eigum ekki að vera hrædd við að gagnrýna íslam frekar en önnur trúarbrögð. Að sama skapi styð ég trúfrelsið og rétt fólks til að iðka sína trú svo fremi sem það skaðar ekki aðra með beinum hætti. Þar greinir mig svolítið á við heita andstæðinga íslam á Íslandi sem sumir hafa lagt til að banna trúarbrögðin eða telja að það þurfi að vera einhverjar sérreglur um þá sem að aðhyllast íslam. Ég bara tek fyrir slíkt.“

Íhugaði að hringja á lögreglu

Auk Sigurðar héldu þau Ibrahim Sverrir Agnarsson, formaður Félags múslima á Íslandi, Guðrún Margrét Guðmundsdóttir, doktorsnemi í mannfræði, og Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður erindi á málþinginu. Töluðu þau í um klukkutíma en síðan var annar klukkutími nýttur í pallborðsumræður og spurningar úr sal þar sem mörgum var afar heitt í hamsi að sögn Sigurðar. Segir að sumir viðstaddra hafi tjáð sig reglulega með því að hrópa yfir salinn og að einn gestur hafi jafnvel hótað heljarvist.

„Ég varð pínulítið hræddur. Það var einn maður sem stóð upp, labbaði fram og til baka og öskraði. Ég veit ekki hvort ég var að oftúlka háttalag hans en ég hugsaði með mér hvort það þyrfti að hringja á lögregluna því hann bara hætti ekki. Svo var kona sem stóð upp og talaði um að við færum öll til helvítis, talaði svo eitthvað um Jesú og gekk loks á dyr.“

Sigurður segir þá hatrömmu gagnrýni sem hann hefur fengið, bæði meðan á málþinginu stóð og eftir á, aðallega koma frá einstaklingum sem telja hann og aðra framsögumenn ekki hafa talað nógu sterkt gegn íslam.

„Hitinn var ekki frá múslimum, þrátt fyrir að ég hafi talað í raun mjög skýrt gegn bókstafstrú múslima kom gagnrýnin ekki þaðan,“ segir Sigurður.

„Þú veist að landráð eru dauðasök“

Í pistli á síðunni skodun.is greinir Sigurður frá þeim viðbrögðum sem hann hefur fengið við fyrirlestrinum. Birtir hann nokkur ummæli um málþingið og hann sjálfan sem hann hefur fundið á opnum síðum á veraldarvefnum. Einnig birtir hann brot úr hótun sem honum barst sem er erfitt að túlka sem annað en óbeina morðhótun.

„þú er bara lúmskur íslamisti þegar upp er staðið kallinn, þú kallar mig ekkert fyrir extremista án þess að mæta því, þú ert á mála hjá Íslamíu Quislingurinn, það verður mikið um Grísa skræki þegar uppgjörið verður og ég ætla ekki að missa af því. Ps. þú sorterar ekkert í íslam frekar en aðrir og þú túlkar ekki fyrir aðra um íslam, nema að vera á mála hjá þeim, það er dauðasök, þú veist að Landráð eru Dauðasök? Ekki satt og sanngjarnt? Mér fynnst það,“ stendur meðal annars í hótuninni.

„Ég verð að segja að ég er svolítið eftir mig eftir þessa síðustu klukkutíma,“ segir Sigurður sem furðar sig jafnframt á þeim hatursfullu ummælum sem fólk lætur út úr sér eða skrifar á almennum vettvangi.

„Það talaði við mig maður sem er múslimi og sagði mér að hann væri lengi búinn að ganga um með piparúða á sér af því að hann verður fyrir svo miklu aðkasti. Mér finnst þetta gríðarlega sorglegt, svona á umræðan ekki að vera.“

Taka þarf umræðuna frá ofstækisfólki

Sigurður segir mikilvægt að fólk sem hafi áhuga á að fjalla um mannréttindi hiki ekki við að tala um þau. Hann segir mikilvægt að leyfa ekki ofstækisfólki að stjórna umræðunni enda sé það það versta sem getur gerst.

„Ég held að besta leiðin til að búa til öfgahreyfingar sé að einangra fólkið sem er þessarar trúar þannig að því líði illa í samfélaginu og finnist það utangarðs. Auðvitað er til fólk sem er bara með snargalnar skoðanir en ef viðhorfið sem þú færð frá samfélaginu er að þú sért stórhættulegur, barnaníðingur og þar fram eftir götunum þá er ekkert skrítið að þetta fólk leiti eitthvert annað eftir samkennd og samstöðu,“ segir Sigurður.

„Við þurfum að óttast allar pólitískar öfgar og þá hugmyndafræði sem vill skerða frelsi okkar og réttindi. Ég held að á Íslandi í dag sé meiri ástæða til að óttast fasíska tilburði stjórnmálahópa og einstaklinga. Það er fólkið sem lætur í sér heyra hér á landi,“ segir Sigurður.

Sigurður segir að mikilvægt sé að gagnrýna trúarbrögð eins og íslam en hann telji að margir haldi að sér höndunum þar sem þeir vilji ekki vera flokkaðir með þeim sem tala hvað hæst.

„Þeir tala út frá fordómum og hatri að mínu mati. Þess vegna er svo mikilvægt að taka umræðuna frá þessu fólki og ræða þessi mál málefnalega.“

Barn í Malí les úr Kóraninum.
Barn í Malí les úr Kóraninum. mbl.is/AFP
Sigurður segir hvers konar bókstafstrú varhugaverða.
Sigurður segir hvers konar bókstafstrú varhugaverða. Ljósmynd/ Sigurður Ægisson
Kona íklædd búrku kaupir silkigarn í verslun í Afghanistan.
Kona íklædd búrku kaupir silkigarn í verslun í Afghanistan. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert