Er Grýla keltnesk gyðja?

Grýla og Leppalúði á barnaskemmtun í Þjóðminjasafninu. Grýla á margt …
Grýla og Leppalúði á barnaskemmtun í Þjóðminjasafninu. Grýla á margt sameiginlegt með skoska vættinum Cailleach Beur og hinni írsku Cailleach Bhéara. Mbl.is/ Kristinn Ingvarsson

„Ég leyfi mér að fullyrða að Grýla og synir hennar eigi sér mun dýpri rætur en almennt er talið,“ segir Valgerður H. Bjarnadóttir en hún mun halda fyrirlestur um Grýlu næstkomandi mánudagskvöld i Lygnu í Reykjavík. Valgerður, sem er með MA í femínískri menningar- og trúarsögu, telur að Grýla eigi margt sameiginlegt með skosku gyðjunni Cailleach Beur og írsku gyðjunni Cailleach Bhéara.  

„Á Skotlandi og á Írlandi finnum við sagnir sem minna mjög á Grýlusagnirnar og það er auðvitað enginn vafi á því að við landnám flytjast hingað sagnir og trú með öllum þeim sem hér nema land. Sumar sagnirnar festa rætur og aðrar breytast og blandast saman við það sem kemur annars staðar frá.  Þannig er mjög margt líkt með til dæmis álfasögum frá Írlandi og okkar íslensku sögum. Skoska gyðjan Cailleach Beur og írska gyðjan Cailleach Bhéara eru keltneskar útgáfur af gyðju eða vætti sem minnir um margt á Grýlu.“ Báðar eru að sögn Valgerðar tengdar vetrinum og hinni hverfandi sól, fjöllunum og óbyggðum og eru ógurlegar ásýndum. Báðar eiga staf sem frystir jörðina og karl sem er mun veikburðari en þær auk þess sem í sumum sögnum eiga þær ótalmörg börn.

Jólasveinarnir tákna mánuðina milli vetrarsólhvarfa

Grýla er þekkt sem flagð frá þrettándu öld og varð svo á sautjándu og átjándu öld barnaæta tengd jólunum. Fyrst fréttist af jólasveinum á sautjándu öld sem afkvæmum Grýlu og miklu illþýði. Þeir taka nokkuð að mildast á nítjándu öld, koma þá ýmist af fjöllum eða af hafi og eru oftast níu eða 13 talsins.

„Þessar tölur, níu og þrettán, eru áhugaverðar ekki síst þar sem þar eru komnast þær tölur sem hvað oftast, ásamt þremur, koma fyrir í tengslum við gyðjutrú til forna. Valkyrjurnar eru líka ýmist níu eða 13,“ útskýrir Valgerður. „Ég er þeirrar skoðunar að Grýla eigi sér sömu rætur og fjöldi annarra vætta, gyðja og norna, sem tengjast myrkrinu og dauðanum, en sem eiga það sameiginlegt að fæða af sér ljósið. Jötnamærin Nótt fæddi af sér jötuninn Auð, en einnig bæði Jörð og Dag, í goðsögn sem Snorri greinir frá í Snorra-Eddu. Um víða veröld finnum við sögur af móðurgyðjum sem eignast son á vetrarsólhvörfum, sumar þessara mæðra eru fagrar og ljúfar líkt og María mey, en aðrar eru myrkar.“

Valgerður telur að Grýla sé tákn fyrir vetrarsólhvörfin, eða þann tíma ársins sem áður fyrr var erfiður, kuldi og hungur sem varð mörgu barninu að fjörtjóni. „Jólasveinarnir eru 13 vegna þess að þeir tengjast tunglinu og mánuðunum milli vetrarsólhvarfa. Tungl kviknar eða fyllist 13 sinnum á ári, og talan 13 er heilög tala í allri gyðjutrú og annars staðar þar sem fólk tengist tunglinu sterkt.“

Valgerður nefnir einnig jólaköttinn sem hluti af þessari heildarmynd. „Ef Grýla er gyðja eða norn, þá er kötturinn sjaldnast langt undan í þeirra sögum.“

Gott að tengja við Grýlu á jólunum

Aðspurð hvort Íslendingar séu þá nokkuð búnir að missa Grýlu sem séríslenskt fyrirbæri hlær Valgerður og segir að Grýla, Leppalúði og jólasveinarnir séu vissulega séríslenskt fyrirbæri. „Þau eiga sér bara skyldfólk um víða veröld. Hér á Íslandi hefur sagan þróast á sinn sérstaka hátt.“

Valgerður segir það gott og gaman að tengja aðeins við Grýlu á þessum árstíma og sjá hana jafnvel í nýju ljósi. „Á þessum árstíma hafa síðustu þúsundir ára skapast hefðir víða um heim, þar sem fólk gengur svolítið af göflunum, drekkur og borðar óhóflega, gefur gjafir, leikur alls kyns leiki, gert er grín og hlegið, hrætt og slegist. Við höfum skipt þessu upp, við fíflumst og göngum svolítið af göflunum á aðventunni og um áramót og gerumst svo góð, fín og gjöful um jólin.“ Valgerður segist enga trúa hafa á að óttinn við myrkrið og hið óþekkta hverfi úr mannheimum þrátt fyrir að enginn trúi lengur á Grýlu og hennar hyski. „Ég held að það sé mikilvægt að muna alltaf að nýtt líf kviknar í myrkri, myrkrið er jafnmikilvægt, jafngott og engu óæðra en ljósið.“

Fyrirlesturinn Grýla, gyðja myrkurs og móðir ljóssins verður í Lygnu, Síðumúla 10, kl. 19 næstkomandi mánudag. Skráning er á vanadis@vanadis.is.

Valgerður H Bjarnadóttir telur að Grýla sé tákn fyrir Vetrarsólhvörfin, …
Valgerður H Bjarnadóttir telur að Grýla sé tákn fyrir Vetrarsólhvörfin, eða þann tíma ársins sem áður fyrr var erfiður með sínum kulda og hungri sem varð mörgu barninu að fjörtjóni. Mbl.is/ Árni Sæberg
Hin skoska Cailleach Beur var risavaxin og ógurleg ásyndar og …
Hin skoska Cailleach Beur var risavaxin og ógurleg ásyndar og er sögð hafa skapað helstu fjöll Skotlands þegar hún strunsaði þar um. Ljósmynd/Wikipedia
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert