Vetrarfærð víða í dag

mbl.is/Þorkell Þorkelsson

Búið er að opna alla vegi sem voru lokaðir í gær vegna vatnsskemmda. Ráðist var í bráðabirgðaviðgerðir á vegunum, en töluverðar skemmdir urðu víða á malbiki þar sem vatn komst undir klæðningar. 

Jón Hálfdán Jónasson, þjónustufulltrúi hjá Vegagerðinni, segir skemmdirnar aðallega hafa verið í kringum Hólmavík, en eins og mbl.is fjallaði um í gær fór Djúpavegur sunnan við Hólmavík í sundur í miklum vatnselg í bæjarlæknum. Jón segir tjóni þó hafa verið afstýrt á öðrum stöðum eins og á Holtavörðuheiði.

„Það er búið að gera bráðabirgðaviðgerðir svo hægt sé að hleypa umferð um þá vegi sem voru lokaðir, en færðin er ennþá frekar erfið í dag,“ segir hann. „Það er þó bara vetrarfærðin sem er að stríða okkur núna.“

Að sögn Jóns er allur mokstur á Vestfjörðum hafinn, en hálka, snjóþekja, éljagangur og skafrenningur er víða á vegum. Ófært er á Steingrímsfjarðarheiði og Þröskuldum, en þæfingsfærð, skafrenningur eða stórhríð er á öðrum fjallvegum. 

Á Vesturlandi er snjóþekja, hálka og hálkublettir og él. Hálka og skafrenningur er á Holtavörðuheiði en þæfingsfærð á Bröttubrekku. Hálka og éljagangur er á Hellisheiði og í Þrengslum en hálka og skafrenningur á Sandskeiði og á Mosfellsheiði. 

Þá er hálka, snjóþekja, éljagangur og skafrenningur á Norðurlandi. Hálka og skafrenningur er á Þverárfjalli en snjóþekja og skafrenningur á Vatnsskarði. Snjóþekja og snjókoma er á Siglufjarðarleið en ófært og óveður er á Öxnadalsheiði. Snjóþekja og hvassviðri er á Víkurskarði og Ljósavatnsskarði.

Veðurstofan hefur varað við stormi, eða meira en 20 metrum á sekúndu vestantil og einnig Suðaustanlands fram eftir degi. Að sögn Jóns gerir Vegagerðin ráð fyrir því að færð á vegum skáni þegar líður á daginn.

Veðurhorfur á landinu næsta sólarhring:

Suðvestan 13-23 m/s og éljagangur, hvassast úti við sjávarsíðuna, en bjart með köflum A-lands. Dregur úr vindi og éljagangi seinni partinn. Vestan og norðvestan 8-15 og él, hvassast við S- og A-ströndina. Kólnandi veður og frost 1 til 10 stig á morgun, mest inn til landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert