Fékk rauðan kjól í rauðum kjól

GoRed átakið hófst formlega í dag þegar rauðklædd sendinefnd GoRed á Íslandi nældi rauða kjólnum í meðlimi borgarstjórnar, sem einnig klæddust rauðu, í Ráðhúsi Reykjavíkur. Markmið átaksins er að fræða konur um áhættuþætti og einkenni hjarta- og æðasjúkdóma.

Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir, hjartalæknir og formaður stjórnar GoRed á Íslandi, færði Sóleyju Tómasdóttur, forseta borgarstjórnar, fyrsta rauða kjólinn en nælurnar fara nú í sölu um land allt og rennur ágóðinn til styrktar GoRed á Íslandi. GoRed átakið er alheimsátak á vegum Alþjóðlegu hjartverndarsamtakanna en hér á landi er það samstarfsverkefni Hjartaverndar, Heilaheilla og Hjartaheilla, auk fagdeildar hjartahjúkrunarfræðinga og fleiri fagaðila.

Valda 350-400 af hverjum 1.000 dauðsföllum á Íslandi

Margir telja að hjarta- og æðasjúkdómar séu frekar bundnir við karlmenn en staðreyndin er sú að þeir eru algengasta dánarorsök kvenna á Íslandi, sem og kvenna annars staðar í heiminum. Af hverjum 1.000 dauðsföllum á ári á Íslandi eru á milli 350-400 vegna hjarta- og æðasjúkdóma. Jafnmargar konur og karlar látast árlega af völdum hjarta- og æðasjúkdóma en konur fá sjúkdóminn að jafnaði 10 árum síðar en karlar.  Eftir hjartaáfall hjá konum verða þær frekar þunglyndar en karlmenn, komast síður aftur á vinnumarkaðinn og fá frekar aukaverkanir af lyfjum.

Algengt er að konur séu ekki meðvitaðar um áhættuþættina og einkennin sem geta oft verið ólík þeim sem tengjast hjarta- og æðasjúkdómum hjá körlum. Konur bíða því gjarnan lengur en karlar með að leita sér hjálpar vegna brjóstverkja og tefst því greiningarferli og áhættumat vegna hjarta- og æðasjúkdóma. Með því að auka vitund um áhættuþættina er ekki aðeins hægt að fækka tilvikum hjarta- og æðasjúkdóma hjá konum heldur hafa rannsóknir sýnt að aukin vitund kvenna hefur óbein áhrif á lífsstíl karla og ungmenna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka