Borðaði hassís og hljóp um nakinn

Rjómaís, líklega ekki með hassi.
Rjómaís, líklega ekki með hassi. mbl.is/Valdís Þórðardóttir

Ungt par sem ætlaði að krydda tilveruna hjá sér í sumarbústað í Borgarbyggðinni um liðna helgi með því að útbúa sér kannabis-ís, eftir uppskrift af Netinu, beit heldur betur úr nálinni þegar það byrjaði að gæða sér á ísnum.

Á facebooksíðu lögreglunnar á Vesturlandi segir að eftir að hafa borðað ísinn var kærastinn fljótlega kominn úr öllum fötunum og farinn að hlaupa um nakinn utandyra með slíkar ofskynjanir að hann vissi ekkert í sinn haus.

Kærastunni var orðið mjög óglatt og var hún orðin hrædd um geðheilsu þeirra beggja. Var því hringt eftir lögreglu og læknisaðstoð.

„Lagði lögreglan hald á það sem eftir var af þessum hættulega hassís og sendi hann til frekari rannsóknar en þá þegar hafði komið fram að hann var ekki par góður né hollur til neyslu hvað þá ofneyslu. Eftir læknisskoðun var parinu komið til síns heima og undir eftirlit „fullorðinna“, því ekki þótti ráðlegt að þau væru lengur ein í sumarbústaðnum,“ segir lögreglan.

Þá vill lögregla biðja fólk um að fara varlega í að trúa öllu því sem að stendur á Netinu og gæta sín vel á öllum fíkniefnum, sama í hvaða mynd þau birtast.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert