Bálhvasst víða á Vesturlandi

Það er mikil vinna framundan að laga það sem gaf …
Það er mikil vinna framundan að laga það sem gaf sig í óveðrinu á laugardag. mbl.is/Golli

Það er mjög hvasst víða á Suður- og Vesturlandi og varar Veðurstofan við snörpum vindhviðum við fjöll fram eftir morgni. Á Reykjanesbraut fer vindhraðinn yfir 30 metra á sekúndu í hviðum og yfir 50 metra á sekúndu á Fróðárheiði.

Á höfuðborgarsvæðinu í nótt bárust nokkrar tilkynningar til lögreglunnar um fok á þakplötum og öðru lauslegu. Slökkviliðið hefur einnig verið að aðstoða björgunarsveitarfólk í fokverkefnum í nótt. Björgunarsveitarfólk hefur verið að störfum bæði í Reykjavík og Suðurnesjum vegna foks á lausamunum. 

Innanlandsflug liggur niðri hjá Flugfélagi Íslands og er það á áætlun klukkan 10.15. Hjá flugfélaginu Erni verður athugað með flug frá Reykjavíkur til Vestmannaeyja klukkan 8.15. 

Suðaustan 15-25 m/s, hvassast á annesjum vestanlands. Víða rigning, en slydda eða snjókoma norðvestantil. Vestlægari og dregur mikið úr vindi og úrkomu seinni partinn, suðvestan 5-10 og stöku skúrir eða él í kvöld. Hiti yfirleitt 1 til 6 stig.

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er sunnanstormur um landið vestanvert. Byljóttur vindur og snarpar hviður á norðanverðu Snæfellsnesi, 30-45 m/s. Eins á Vestfjörðum s.s. við Hnífsdal og í Arnardal á milli Ísafjarðar og Súðavíkur. 

Allvíða er varað við vegaskemmdum þar sem slitlag hefur skemmst í hvassviðri. Vegfarendur eru beðnir að fara með gát, segir í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Krapasnjór er á Hellisheiði, annars er greiðfært á Suðurlandi en óveður er mjög víða.

Á Vesturlandi er ófært á Fróðárheiði og Bröttubrekku. Þæfingsfærð er í Svínadal. Snjóþekja er á Holtavörðuheiði og óveður er mjög víða.

Á Vestfjörðum er snjóþekja á flestum leiðum og óveður mjög víða. Ófært er um Þröskulda, Steingrímsfjarðarheiði, Kleifaheiði Hálfdán, Klettsháls og Hjallaháls. Þæfingsfærð er á Gemlufallsheiði.

Nokkuð er um snjókomu, snjóþekju og hálku Norðanlands. Hálka og skafrenningur er á Öxnadalsheiði. Þæfingsfærð með skafrenningi á Þverárfjalli. Varmahlíðarmegin við Vatnsskarð er krapafærð.

Á Austurlandi er víða hálka og éljagangur. Snjóþekja og éljagangur er á Mývatns- og Möðrudalsöræfum og Biskupshálsi. Ófært er á Hófaskarði.

ATH. Vegurinn um Hvalnesskriður / Þvottárskriður er lokaður vegna aurskriðu. Unnið er að opnun, ekki er vitað hvenær muni nást að opna. Greiðfært er með suðausturströndinni og er eitthvað um éljagang.

ATH. Vegurinn niður að Dyrhólaey (vegnúmer 218) er ekki fær bílum og því lokaður. Verður skoðað í dag.

Veðurspá fyrir næstu daga:

Á þriðjudag er spáð hægri breytilegri átt og slyddu eða snjókomu með köflum austanlands, en annars úrkomulítið. Vægt frost inn til landsins, en annars frostlaust.

Á miðvikudag:
Hægir vindar og bjartviðri framan af degi, en gengur í suðaustanhvassviðri með slyddu eða snjókomu sunnantil um kvöldið. Hiti kringum frostmark.

Á fimmtudag og föstudag:
Breytilegar áttir og skúrir eða él í flestum landshlutum. Hiti 0 til 5 stig.

Á laugardag:
Útlit fyrir sunnanátt með rigningu eða slyddu og hlýnandi veður í bili.

Á sunnudag:
Líklega vestanátt með skúrum eða éljum og hita kringum frostmark.

Þakplötur fuku víða
Þakplötur fuku víða mbl.is/Golli
Það fauk nánast allt sem gat fokið
Það fauk nánast allt sem gat fokið mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert