Fágæt bók varðveitt á Hólum

Hebreska biblían var lengi geymd á músheldu kirkjulofti í Hóladómkirkju.
Hebreska biblían var lengi geymd á músheldu kirkjulofti í Hóladómkirkju. mbl.is/Sigurður Ægisson

Í Auðunarstofu á Hólum er varðveitt eintak af Gamla testamentinu á hebresku og eru skrifaðar inn í það athugasemdir, þar af með hendi Guðbrands Þorlákssonar, sem var biskup á Hólum frá 1571 til dauðadags 1627. Bókin var prentuð í Hamborg árið 1587 og er mikið fágæti. Útgefandi var Elias Huttero (1553-1605/1609), prófessor í hebresku við Leipzig-háskóla.

Á titilsíðu ritar Guðbrandur, að hann gefi Hóladómkirkju umrædda bók ásamt fleiri sem allar eru nú glataðar; langflestar voru seldar þegar biskupsstóllinn var lagður niður árið 1801.

Í lok mars árið 1993 var dr. Sigurður Örn Steingrímsson, þá hebreskukennari við Guðfræðideild Háskóla Íslands, staddur á Hólastað ásamt dr. Georg Braulik prófessor, sem var stjórnandi deildar Gamlatestamentisfræða við Háskólann í Vín, og sýndi Bolli Gústafsson, þáverandi vígslubiskup, þeim ýmsar bækur sem geymdar voru á kirkjuloftinu. Var dr. Braulik mjög undrandi á að svo fágætur gripur væri þarna niðurkominn.

„Allar þessar gömlu prentanir af hebreska textanum eru afar fágætar. Bæði var þetta gert í mjög fáum eintökum og svo hafa mörg þeirra glatast og horfið með ýmsu móti. Elstu útgáfurnar af hebreska textanum voru ætlaðar gyðingum, en síðan fóru kristnir menn að prenta þetta fyrir sig. Bókin á Hólum er áreiðanlega ein af þeim fyrstu, og þannig er hún eindregið mjög fágæt. Hún er í góðu ástandi nema hvað komist hefur í hana raki. Menn hafa einhvern veginn fram að þessu ekki áttað sig á því hvað þetta var. Þarf að athuga bókina betur og þá hvernig þessi prentun stendur af sér miðað við aðrar, en þetta er áreiðanlega ein af allra fyrstu prentunum, sem er ætluð fyrir kristna menn,“ var haft eftir Sigurði Erni í Morgunblaðinu 1. apríl það sama ár. Kvað hann bókina geta varpað vissu ljósi á það hvernig unnið var að þýðingu Guðbrandsbiblíu, sem út kom 1584, en í raun og veru væri engin úttekt til á því hvernig að þýðingunni hefði verið staðið. „Ég hef verið að vinna að nýrri þýðingu Biblíunnar undanfarin ár, og maður kíkir nú stundum í Guðbrand. Ég fullyrði ekki neitt, en það hefur oft slegið mig á sumum stöðum að mér finnist íslenska þýðingin vera æði nálæg hebreska textanum.“

Ljóst er, að þessi hebreska útgáfa var samt ekki notuð í umrætt verk, enda kom hún út þremur árum á eftir fyrstu íslensku Biblíunni, sem prentuð var í 500 eintökum og er talin vera einhver mesti skerfur til íslenskrar menningarsögu fyrr og síðar. Þó má vera, að einhver önnur hafi verið brúkuð, t.d. í eigu Odds Gottskálkssonar, sem m.a. þýddi Davíðssálmana, og biskup vitað af því og svo fengið þessa í kjölfarið, með það í huga að endurbæta textann við aðra prentun ritningarinnar.

Loft dómkirkjunnar þótti múshelt og var árum saman notað fyrir geymslu og var bókin því lengi varðveitt þar. En rétt fyrir aldamótin 1900 voru tvær konur staddar við læk nærri Auðunarstofu, að því er munnmælasaga þar um slóðir hermir, þær voru með pott á hlóðum til að sjóða þvott og erfitt var að fá eldsneyti. Önnur segir þá, að á milli sperra á kirkjuloftinu sé gömul skræða sem enginn geti lesið, hún hljóti að brenna vel, og gengur í það verk að sækja hana. En Viðvíkurprestur, sem þar er staddur einhverra hluta vegna, sér hvað er að fara að gerast og tekst að forða bókinni frá því að lenda á bálinu. Er hún síðan geymd í Viðvík, en kemur aftur í Hóla síðar og var á loftinu þegar sr. Jón Aðalsteinn Baldvinsson kom þangað sem vígslubiskup 2003. Lét hann útbúa glerskáp til að varðveita hana betur.

Langur titill

Fullur titill biblíunnar er: Derekh ha-kodesh lo'-ya'avrenu tame' vehu' lamo holekh derekh ve'evilim lo' yit'u. Hoc est VIA SANCTA Quam non præteribunt immundi, cum sit pro illis: Imò nec viatores, nec stulti aberrabunt. SIVE BIBLIA SACRA ELEGANTI ET MAIVSCVLA CHARACTERVM FORMA, QVA ad facilem sanctæ linguæ & scripturæ intelligentiam, nouo compendio, primo statim intuitu, literæ Radicales & Seruiles, Deficientes & Quiescentes: situ & colore discernuntur. Authore ELIA HVTTERO. HAMBVRGI. Impressa Typis Elianis, per Iohannem Saxonem. ANNO M. D. LXXXVII. Cum Gratia & Priuilegio Sacr: Cæsar. Majestatis.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert