Gengur 560 kílómetra með 25 kíló á bakinu

Bauer segir Íslandsgönguna sína metnaðarfyllstu til þessa.
Bauer segir Íslandsgönguna sína metnaðarfyllstu til þessa. Ljósmynd/Rafal Bauer

Í júlí hyggst pólski göngugarpurinn Rafal Bauer takast á við einstæða áskorun og ganga frá nyrsta odda Íslands, Rifstanga, til þess syðsta, Kötlutanga í júlí. Mun Bauer ganga 560 kílómetra leið með um 25 kíló á bakinu, algjörlega einn og óstuddur þar sem hann hyggst ekki þiggja svo mikið sem vatnsdropa frá öðrum á leið sinni, hvað þá gistingu eða aðstoð með bakpokann.

„Ég hef lagt stund á fjallgöngur í áraraðir og hef alltaf nálgast þessa ferð sem tækifæri til bakpokaferðalags og til þess að komast í snertingu við náttúruna. Í augnablikinu lít ég á þetta sem íþrótt og sem tækifæri til þess að sá hraðamet,“ segir Bauer sem stefnir á að ganga kílómetrana 560 á 13 dögum. Hann segist vita til þess að sama leið hafi verið gengin af Íslendingi á 14 dögum en að sá hafi notið aðstoðar á leiðinni og að Hollendingur hafi gengið hana einn og óstuddur á 19 dögum.

„Þetta er svolítið metnaðargjarnt en ég væri líka ekki að gera þetta annars,“ segir Bauer. „Ég hef tekið þátt í últramaraþonum þar sem við hlaupum 100 kílómetra á 24 tímum, sofum ekki o.s.frv, svo þetta er algerlega gerlegt.“ 

 Óttast árnar mest

Íslenskt björgunarfólk fer reglulega í útköll vegna erlends útivistarfólks í ógöngum og segir Bauer hérlend lögregluyfirvöld hafa ítrekað við sig að öryggið sé fyrir öllu. Hann lofar blaðamanni að hann falli ekki í flokk „vitlausra ferðamanna“ og verði búinn ýmsum tólum og tækjum sem tryggja öryggi hans komi til þess að hann þurfi á hjálp að halda. „Ég verð í stanslausu sambandi við aðra. Ég vil vera viss um að öll skref ferðarinnar séu skráð og ég verð með tæki sem sjá til þess.“

Landslag Íslands er ansi ólíkt því sem gerist á heimaslóðum Bauer í Póllandi en hann telur að reynsla sín af  því að ganga þvert yfir Skotland  muni gagnast honum. Hann segist afar meðvitaður um það mótlæti sem íslensk náttúra kann að bjóða upp á og nefnir sem dæmi að hann áætli að hann  muni ekki hafa aðgang að vatni í tvo daga á meðan hann gengur yfir hraunbreiður þar sem sandur gleypir vatnið.

„Ég held að þetta sé mín stærsta áskorun  hingað til og mig langar að reyna á þolmörk mín. Ég er hræddastur við árnar. Að vaða í gegnum þær verður mín stærsta áskorun á ferðinni svo ég er að undirbúa mig með því að læra að lesa í vatnið,“ segir Bauer. „Ég vona að ég verði öruggur.“

Hægt verður að fylgjast með Bauer í gegnum bloggið hans.

Bauer segist ávalt gæta ýtrustu varkárni.
Bauer segist ávalt gæta ýtrustu varkárni. Ljósmynd/Rafal Bauer
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert