Var boðin 20% hækkun

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mblis/Kristinn Ingvarsson

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, spurði Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, út í þá ákvörðun að taka verkfallsréttinn af félögum innan BHM sem ekki eru í verkfalli. Bjarni sagði ríkið hafa boðið 20% hækkun launa á næstu þremur árum, sem væri mun meira en launahækkanir sambærilegra stétta í samanburðarlöndum Íslands.

„Það er nú að verða ljóst hversu mikilli ringulreið og uppnámi á vinnumarkaði það að setja lög á BHM og FÍH hefur haft,“ sagði Árni Páll í ræðustóli.

„Við sjáum fréttir af uppsögnum hjúkrunarfræðinga og gagnrýni virtra lögfræðinga á þá staðreynd að þrátt fyrir að fjámálaráðherra hafi sagt í síðustu viku að það væri engin ástæða til að setja lög á verkfall meðan að einhver gangur væri í samningaviðræðum.“

Hann segir samt gengið svo langt í lagasetningunni að lögin taka til 12 félaga af 17, „sem eru ekki einu sinni í verkfalli,“ segir Árni Páll. „Það eru ekki nema 5 af 17 sem eru í verkfalli.

Rétturinn til verkfalla tekinn

Árni Páll sagði að af hinum sé tekinn stjórnarskrárvarinn réttur til frjálsra kjarasamninga og til að reyna á þær kröfur í verkfalli. „Hvernig samrýmist svona viðtækt inngrip yfirlýsingum hans um að ekki væri ástæða til að grípa til lagasetningar á verkföll meðan gangur væri í samningaviðræðum. Og hvað hyggst ráðherra gera nú þegar afleiðingarnar blasa við? Uppsagnir hjúkrunarfræðinga. [Bjarni] gekkst fyrir kjarasamningum við lækna sem fólu í sér umtalsverðar hækkanir,“ sagði Árni, og að það hafi verið gert á þeim grundvelli að þar væri verið að verja hagsmuni heilbrigðiskerfisins.

„Öll þau sömu rök eiga líka við um hjújrunarfræðinga, og aðrar fjölmennar kvennastéttir innan heilbrigðiskerfisins. Hvernig ætlar [Bjarni] að leysa úr þeirri klemmu sem hann er búinn að koma sér og þjóðinni í með því að hafa enga heildstæða stefnu í kjaramálum þegar kemur að heilbrigðismálum.“

„Á hvaða plani vilja menn taka þessa umræðu,“ sagði Bjarni í svari sínu. „Ef menn vilja fara niður á þetta plan væri ágætt að rifja það upp að hjúkrunarfræðingar sögðu upp með gildan kjarasamning á síðasta kjörtímabili, ef ég man rétt á annað hundrað, sögðu upp á síðasta kjörtímabili þegar sérstaklega var samið við forstjóra Landspítalans og gert vel við hann. Þá varð allt brjálað,“ sagði Bjarni.

„Ríkisstjórnin hefur falið sinni samninganefnd nokkuð viðtækt umboð. Það sem hefur staðið til boða í þessari samningalotu er um 20% launahækkun og styrking á stofnunum,“ sagði Bjarni.

Áttar sig ekki á innleggi Samfylkingarinnar

Hann sagðist ekki átta sig á innleggi Samfylkingarinnar í þetta mál, annað en það að gera kröfu um að gengið sé að öllum kröfum. „Það er ekki hægt að gera það, því miður. Bara sú staðreynd að menn skuli vera að semja hér til þriggja ára á almenna markaðnum og hinar ýmsu stéttir um launahækkanir um og í kringum 20%, er úr takti við allt það sem er í gangi allsstaðar annarsstaðar,“ sagði Bjarni, og benti á að kaupmáttaraukning á Íslandi hafi verið mun meiri en þekkist annarsstaðar í Evrópu.

„Það þarf að koma einhver skynsemistónn héðan frá þinginu. Má ég biðja um að menn viðurkenni að minnsta kosti að það gildi einhver lögmál í þessum efnum.“

Árni Páll gagnrýndi að ráðherrann eyddi ekki einu orði í að ræða þær ásakanir sínar um að verkfallsrétturinn hafi verið tekinn af fólki, sem ekki er í verkfalli.

„Það er mjög athyglisvert.“ Hann sagði að Samfylkingin, hefði hún verið í ríkisstjórn, hefði lagt fram heildstæða kjarastefnu, frekar en að semja handahófskennt um hluti við suma sem hann gat ekki gefið öðrum. „Hann getur ekki synjað öðrum, sem eru jafnmikilvægir heilbrigðiskerfinu sambærilegrar úrlausnar. Það eiga sömu rök við um aðra,“ sagði Árni, og vísaði til kjarasamninganna sem gerðir voru við lækna.

„Hæstvirtur ráðherra hlýtur að hafa einhverja stefnu í kjaramálum, aðra en að benda á alla aðra en sjálfan sig.“

„Umræðan um frumvarpið fór fram á laugardaginn og ég ætla ekki að fara að endurtaka hana hér,“ svaraði Bjarni. „Með henni og frumvarpinu fylgja röksemdir sem svara öllu því sem hér er borið á borð.“

Hann sagði stefnu Samfylkingarinnar ekki vera aðra en þá að ganga að öllum kröfum allra.

<iframe frameborder="0" height="288" scrolling="no" src="http://player.netvarp.is/althingi/?type=vod&amp;width=512&amp;height=288&amp;icons=yes&amp;file=20150615T145511&amp;start=497&amp;duration=471&amp;autoplay=false" style="border: 0; overflow: hidden;" type="text/html" width="512"></iframe><div id="embedded-remove"> </div>
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert