Leikstýrir Emmanuelle Riva

Borgarstjóri afhenti Kristínu blóm við hátíðlega athöfn í Höfða í …
Borgarstjóri afhenti Kristínu blóm við hátíðlega athöfn í Höfða í dag. mbl.is/Styrmir

„Ég er í sjöunda himni með þessa viðurkenningu. Þetta er mikil og falleg staða,“ segir Kristín Jóhannesdóttir leikstjóri, sem við hátíðlega athöfn í Höfða í gær var útnefnd borgarlistamaður Reykjavíkur 2015.

„Ég hef alltaf litið á útnefningu borgarlistamanns sem mikinn heiður og ætíð fyllst ákveðinni lotningu gagnvart því fólki sem orðið hefur þess heiðurs aðnjótandi að vera borgarlistamaður. Með þessari viðurkenningu er listafólk sett í nokkurs konar framvarðasveit og því fylgir ákveðin ábyrgð. Þannig hvílir á manni að vera öflugur talsmaður lista og öflugur listamaður.“

Kristín hefur verið einkar farsæl sem leikstjóri jafnt kvikmynda og sjónvarpsmynda sem og í leikhúsi og útvarpi. Árið 2009 hlaut hún Grímuna – íslensku leiklistarverðlaunanna fyrir leikstjórn sína á Utan gátta eftir Sigurð Pálsson, en sýningin hlaut alls sex Grímuverðlaun, m.a. sem leiksýning ársins. Hún var tilnefnd til Grímunnar fyrir leikstjórn sína á Rautt eftir John Logan og hlaut Menningarverðlaun DV fyrir leikstjórn sína á Svörtum hundi prestsins eftir Auði Övu Ólafsdóttur. Í ár fengu þrjár sýningar í hennar leikstjórn samtals ellefu tilnefningar til Grímuverðlaunanna, en þetta voru Endatafl eftir Samuel Beckett, Segulsvið eftir Sigurð Pálsson og Blinda konan og þjónninn eftir Sigurð Pálsson, en síðastnefnda verkið hlaut verðlaunin sem útvarpsverk ársins.

 Hlakkar til að sjá Kristbjörgu og Emmanuelle saman

Aðspurð hvað sé framundan hjá sér í listinni segir Kristín munu nýta árið til að undirbúa og leikstýra kvikmynd eftir eigin handriti sem nefnist Alma. „Alma þýðir sál. Stóru línurnar í myndinni eru sekt og sakleysi, glæpur og refsing, ástir og örlög,“ segir Kristín leyndardómsfull, en upplýsir þó að um samtímasögu sé að ræða. „Tökur hefjast í haust og munu eflaust standa fram í mars á næsta ári,“ segir Kristín og tekur fram að ef eftirvinnslan gangi vel verði hægt að frumsýna myndina haustið 2016. Innt eftir leikaravali upplýsir Kristín að Elma Stefanía Ágústsdóttir muni fara með titilhlutverkið, en Elma Stefanía fór með hlutverk Unnar í Segulsviði sem Kristín leikstýrði fyrr í vetur.

„Elma Stefanía er afburðaleikkona og ég vænti mjög mikils af henni í hlutverki Ölmu. Í myndinni leitar Alma til tveggja kvenna um nírætt sem búa í litlu sjávarþorp úti á landi,“ segir Kristín og upplýsir að með hlutverk eldri kvennanna tveggja fari Emmanuelle Riva og Kristbjörg Kjeld. „Ég heillaðist strax af Emmanuelle Riva í námi mínu úti þegar ég sá Hiroshima Mon Amour, sem er með stærri myndum kvikmyndasögunnar eftir handriti Marguerite Duras og í leikstjórn Alain Resnais. Síðan var hún í austurrísku myndinni Amour sem Michael Haneke leikstýrði, en myndin var tilnefnd til fimm Óskarsverðlauna árið 2013,“ rifjar Kristín upp. Myndin var m.a. tilnefnd sem besta mynd ársins, Haneke sem leikstjóri ársins og Riva sem leikkona ársins í aðalhlutverki, en myndin var verðlaunuð sem besta erlenda mynd ársins.

„Ég hlakka óskaplega mikið til að vinna með Emmanuelle og Kristbjörgu, því það er svo spennandi að vinna með leikkonum sem búa yfir jafnmiklum þroska og þær. Ég hlakka svo til að sjá þær saman, því þær tvær eiga eftir að magna hvor aðra upp,“ segir Kristín, sem margoft hefur unnið með Kristbjörgu, m.a. leikstýrði hún henni í Strompleik, Utan gátta, Svörtum hundi prestsins og Karma fyrir fugla.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert