Skoða hvali á rafknúnu skipi

Rafknúið hvalaskoðunarskip fór í sína fyrstu ferð við Ísland í dag en um er að ræða seglskipið Ópal í eigu Norðursiglingar á Húsavík. Meðal gesta í ferðinni var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. Fram kemur í fréttatilkynningu að um sé að ræða fyrsta skipti sem sú tækni sem notuð er í Ópal er nýtt um borð í skipi. Gert er ráð fyrir að skipið fari í leiðangur til austurstrandar Grænlands í framhaldi af ferðinni í dag um Skjálfanda.

„Nýr skrúfubúnaður sem þróaður hefur verið sérstaklega fyrir Ópal hefur þá sérstöðu að hægt er að hlaða rafgeyma skipsins undir seglum. Að jafnaði verða rafgeymarnir hlaðnir þegar skipið kemur til hafnar með umhverfisvænni orku af orkukerfi landsins. Í hvalaskoðunarferðum mun rafmótorinn knýja  skrúfubúnaðinn en þegar skipið siglir fyrir seglum er hægt að breyta skurði skrúfublaðanna og nýta búnaðinn til að hlaða rafmagni inn á geyma skipsins,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert