Varar við breytingum á stjórnarskrá

Ólafur Ragnar í ræðustóli á Alþingi í morgun.
Ólafur Ragnar í ræðustóli á Alþingi í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sagðist í ræðu sinni við þingsetningu í dag vera að setja Alþingi í síðasta sinn.

„Þegar ég er nú samkvæmt umboðinu sem þjóðin fól mér að setja Alþingi í síðasta sinn flyt ég þinginu í senn djúpa virðingu mína og einlægar þakkir,“ sagði Ólafur í ræðu sinni við þingsetninguna. 

„Fullveldi þjóðarinnar, sjálfstæði sem staðfest var við stofnun lýðveldisins og rétturinn til auðlinda hafsins 100 mílna frá ströndum landsins eru vitnisburður um árangur Alþingis,“ sagði Ólafur Ragnar við upphaf ræðu sinnar. Hann sagði að vegferðin hafi stundum verið torsótt en að Alþingi bar jafnan gæfu að sýna seiglu þegar mest á reyndi.

Tími hvers þingmanns er stuttur

„Þingsetning er hverju sinni áminning um þessa sögu, arfleiðina sem hið lýðsræðislega kjör færir okkur og um leið ábyrgðina gagnvart framtíðinni,“ sagði Ólafur og áréttaði að tíminn sem hver og einn þingmaður fái í þingsal væri stuttur í langri sögu Alþingis. „Það er skylda okkar að skila heiðri Alþingi heilum í hendur þeirra sem næstir koma.“

Ólafur lagði áherslu á mikilvægi fullveldisins.  „Allir vissu að fullveldið var hornsteinn í sjálfstæðiskröfum Íslendinga. Réttur sem síðar var hertur við erlend ríki um útfærslu landhelginnar. Fullveldið var þá forsenda þess að fámenna þjóðin bar hærri hlut en heimsveldið,“ sagði forsetinn og bætti við að fullveldisrétturinn hafi einnig verið nýlega úrslitavopn „þegar bandalag Evrópuríkja reyndi að þvinga Íslendinga til að axla skuldir einkabanka.“

Vilja breyta „hinum helga arfi sjálfstæðisins“

Hann gagnrýndi síðar áætlanir þess efnis að breyta stjórnarskránni. „Um þessar mundir er hinsvegar boðað í nafni nefndar sem ræðir stjórnarskránna að hið nýja þing þurfi að næstu vikum að breyta þessum hornsteini íslenskrar stjórnskipunar. Tíminn sé naumur vegna sparsemi og hagræðis forsetakosningar á næsta vori. Efnisrökin eru hvorki tilvísun í þjóðaheill eða ríkan vilja landsmanna. Heldur er almennt talað um alþjóðasamstarf, lagatækni og óskir alþingismanna.“

Ólafur benti á að Íslandi hafi alla tíð frá lýðveldisstofnun tekist að stunda fjölþætt alþjóðasamstarf með ýmsum alþjóðastofnunum og öðrum ríkjum, „án þess að þörf væri að breyta fullveldisákvæðum lýðveldisins, hinum helga arfi sjálfstæðisins.“

„Sé það hinsvegar ætlun þingsins, að fara nú að hreyfa við  þessum hornsteini í stjórnarskrá lýðveldisins ber að vanda vel þá vegferð,“ sagði Ólafur og bætti við að efna þyrfti til umræðu meðal þjóðarinnar um afleiðingar breytinganna. „Við skuldum það kynslóðinni sem helgaði fullveldinu krafta sína,“ sagði Ólafur.

Áætlanir um sameinaðar kosningar andlýðræðislegar

Hann sagði einnig að vanda þyrfti til verka þegar það kæmi að lagatillögum um þjóðaratkvæðagreiðslur og þjóðareignir á auðlindum. Hann sagði að þær hugmyndir hvíldu á víðtækri og lýðræðislegri umfjöllun.

„Þá er  einnig vandaverk að velja orðalag slíkra greina í stjórnarskrá, einkum þegar að  ljóst er að ágreiningur innan þings og utan hvers langt eigi að ganga.Hversu víðtækur er rétturinn um að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um einstök lög eigi að vera og hversu afdráttalaus eignarréttur þjóðarinnar á auðlindum verður skilgreindur í stjórnarskrá.“

Forsetinn gagnrýndi jafnframt þá hugsun að samning lagagreina um þjóðareign og þjóðaratkvæðagreiðslu væru þröng tímaverk eða sparnaðarhvöt. Hann varaði við því að gæðum verksins yrði stefnt í hættu ef kosningarnar yrðu haldnar á sama tíma og forsetakosningar næsta vor. Hann sagði áætlanir um það andlýðræðislegar í eðli sínu.

„Sé talin nauðsyn að breyta stjórnarskrá í grundvallarefnum eru útgjöld um þau efni þjóðaratkvæðagreiðslu léttvæg lóð. Það er eðlilegt að þjóðin fái ótrufluð af öðru að að vega og meta slíkar breytingar,“ sagði Ólafur og bætti við að nauðsynlegt væri að stjórnskipum landsins sé ekki í uppnámi þegar þjóðin velur forseta.

„Við erum ekki svo fátækir Íslendingar

„Því ítreka ég því nú hin sömu varnaðarorð og við þingsetningu fyrir fjórum árum, að Alþingi tryggi að þjóðin viti með vissu hver staða forsetans sé í stjórnskipun landsins þegar hún gengur að kjörborðinu. Annars gætu forsetakosningar orðið efni í óvissuferð.“

Hann sagði það að tengja verulegar breytingar á stjórnarskrá landsins við kosningar á forseta lýðveldisins „andstætt lýðræðislegu eðli. Eðli beggja verkefna gæti aðeins komið til farsællar framkvæmdar ef breið og almenn sátt næst, bæði innan þings og utan, um stjórnarskrárbreytingarnar og að þær verði ekki ekki sérstakt deiluefni í umræðum og baráttu við forsetakjörið.“

„Við erum ekki svo fátækir Íslendingar ekki hægt að veita þjóðinni með aðgreindum kosningum sjálfstæðan rétt til að ákveða nýskipun stjórnarskrá og kjósa sérstaklega forseta lýðveldisins og hver fái vald hans og ábyrgð í hendur.“

Ekki hægt að ganga að valdinu vísu til frambúðar

Hann hvatti þingmenn til að vanda til verka þegar að grundvallarréttindi þjóðarinnar og stjórnskipun lýðveldisins eru sett á dagskrá. „Sagan sýnir að slík ákvæði standa lengi og móta þjóðir og einstaklinga langt umfram önnur lög.“

„Sérhver sem kosinn er til Alþingis skynjar vel slíkar skyldur og traustið sem kjörinu fylgir. Það þekki það vel af eigin raun,“ sagði Ólafur og benti á að hann hafi tengst Alþingi í hálfa öld þó svo að ábyrgð og staða hafi tekið breytingum.

„Þegar ég er nú samkvæmt umboðinu sem þjóðin fól mér set Alþingi í síðasta sinn flyt ég þinginu í senn djúpa virðingu mína og einlægar þakkir og minnist þeirra fjölmörgu sem verið hafa samstarfsmenn mínir. Einkum þeirra sem miðluðu mér að reynslu sinni, samferða á þingfundum og í nefndarstarfi.“

Ólafur sagði að Alþingi hafi tengst starfi hans stóran hluta ævinnar og mótað ábyrgð hans og skyldur gagnvart íslenskri þjóð. „Alþingismenn fá í hendurnar sögulegan arf og jafnvel tækifæri til að móta framtíðina,“ sagði Ólafur að lokum. „Hér ber ávallt að ganga til verka með hógværð þeirra sem vita að örlög allra eru mörkuð óvissu, að þjóðin dæmir, stundum hart og fylgið kann að þverra án fyrirvara. Enginn sem hér hlýtur sæti getur gengið að valdinu vísu til frambúðar. Við vitum að hver tími tekur enda og að heill Alþingis og farsæld þjóðarinnar eru æðri stöðu einstaklinga þeir koma á vettvang og hverfa þaðan. En Alþingi sjálft varðveitir sessinn í sögu íslendinga.“

Ólafur Ragnar flytur ræðu sína við þingsetninguna.
Ólafur Ragnar flytur ræðu sína við þingsetninguna. mbl.is/Árni Sæberg
Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis og Ólafur Ragnar Grímsson, forseti …
Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis og Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands við þingsetninguna í morgun.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert