Sigrún er 100 ára í dag

Sigrún Hjálmarsdóttir.
Sigrún Hjálmarsdóttir.

Sigrún Þórey Guðrún Hjálmarsdóttir fagnar hundrað ára afmæli sínu í dag. Hún fæddist í Hólsgerði í Saurbæjarhreppi í Eyjafirði 28. september 1915. Foreldrar hennar voru hjónin Ingibjörg Jónsdóttir og Hjálmar Þorláksson, bæði fædd í Skagafirði.

Sigrún átti þrjú eldri hálfsystkini samfeðra auk þriggja albræðra sem allir bjuggu í Eyjafirði og eru nú látnir. Sigrún er mjög ættrækin og hefur ávallt haldið góðu sambandi við skyldfólk sitt.

Árið 1922 flutti fjölskylda Sigrúnar í Syðri-Villingadal og í Ytri-Villingadal árið 1934 þar sem Sigrún átti heima þar til hún tók við störfum ljósmóður í sveitinni framan Akureyrar.

Sigrún var fjóra vetur í farskóla, nokkrar vikur á hverjum vetri. Einn vetur var hún í Húsmæðraskólanum á Laugalandi í Eyjafirði og lauk ljósmæðraprófi frá Ljósmæðraskóla Íslands 1944.

Hún starfaði sem ljósmóðir í Hrafnagilshreppi og Saurbæjarhreppi 1944-1958 og í Öngulsstaðahreppi 1947-1958. Hafði aðsetur á Espihóli í Hrafnagilshreppi þann tíma.

Árið 1960 giftist hún Ólafi Runebergssyni, bónda og handverksmanni í Kárdalstungu í Vatnsdal, og hefur átt þar heima síðan. Þau Ólafur eignuðust einn son, Hjálmar Þorlák, sem fæddist 7. janúar 1961. Hjálmar er giftur Halldóru Baldursdóttur og eiga þau soninn Sigurstein Víking.

Sigrún á létt með að skrifa og er prýðilega hagmælt. Hafa birst eftir hana ljóð og frásagnir í tímaritum, mest í Húnavöku og Heima er bezt. Hún hefur afburðaminni og man fólk og atburði vel. sh@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert