„Fjölbreytni í dómstólum!“

Ragnar var einn frummælenda á fundinum, en hann sést hér …
Ragnar var einn frummælenda á fundinum, en hann sést hér í sæti. mbl.is/Styrmir Kári

Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður hélt erindi á málþingi Orators, félags laganema við Háskóla Íslands í gær, þar sem fjallað var um nefndina sem metur hæfi umsækjenda um stöðu dómara við Hæstarétt. Auk Ragnars héldu Kristrún Elsa Harðardóttir og Skúli Magnússon erindi.

Frétt mbl.is: Gæti ekki verið skýrara

Ragnar sagði í upphafi erindis síns að það orð sem skipti mestu máli frá sínum sjónarmiðum væri orðið „fjölbreytni.“

Í dag sagði hann umræðuefnið fjölbreytni í dómstólum. „Dómstólar eru að sjálfsögðu til fyrir fólkið, en fólkið ekki fyrir dómstólana,“ sagði Ragnar, og hafði dálítinn sögulegan inngang að erindi sínu.

Frétt mbl.is: Eiga ekki að vera dómarar vegna kyns

Hann sagðist hafa skrifað um þetta viðfangsefni í tæp 20 ár en það hefði engin áhrif. Ragnar sagði að í frumvarpi formanna stjórnmálaflokkanna til breytinga mannaréttindakafla stjórnarskrárinnar 1994 hafi verið gerð tillaga um jafnræðisákvæði hennar með þessum hætti:

Allir skulu vera jafnir fyrir lögum án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernis­uppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.

Ragnar sagði að sú tillaga hefði sætt gagnrýni þar sem hún þótti ekki nægilega almenn. Gagnrýnin leiddi til þess að tillögunni var breytt og var 1. mgr. 65. gr. samþykkt svohljóðandi:

Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.

„Þetta var auðvitað bylting,“ sagði Ragnar. Þó var ekki talið nóg að gert að segja að allir væru jafnir fyrir lögum vegna þess að jöfn staða karla og kvenna hafði átt undir högg að sækja sagði Ragnar í erindinu. „Og það var ekkert sem benti til þess að róttækar breytingar væru að gerast á þessum tíma,“ sagði hann.

Það varð að hans sögn til þess að fram kom tillaga að í stjórnarskrá skyldi setja eftirfarandi ákvæði:

Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.

„Þetta er auðvitað sérregla, þrátt fyrir hina almennu jafnræðisreglu,“ sagði Ragnar. „Í henni fólust að sjálfsögðu merk skilaboð til löggjafans og framkvæmdavaldsins.

Um jafnræðisákvæði stjórnarskrárinnar hefur Björg Thorarensen sagt að hún sé í raun grunnregla sem liggur að baki öllum hinum mannréttindunum. „Þetta er ekki skrautblóm, þetta er efnisregla sem skylt er að fara eftir, hvort sem um ræði Alþingi, framkvæmdavaldið eða dómstóla,“ sagði hann.

Jákvæð athafnaskylda á stjórnvöld

„Með þessu er lögð jákvæð athafnaskylda á stjórnvöld í því skyni að rétta hlut þeirra sem verr eru settir í samfélagi okkar,“ sagði Ragnar. Hann sagði það ekki síst eiga við um sérákvæðið um jafnan rétt kvenna og karla. „Skilaboð stjórnarskrárgjafans til almenna löggjafans og stjórnvalda eru skýr og ótvíræð: Setjið og framkvæmið lög þannig að markmiðinu um jafnan rétti kvenna og karla verði náð sem fyrst.“

Ragnar sagði að áhrif hinnar nýju sérreglu á dómiðkun hafi ekki látið á sér standa því árið 1997 gekk dómur í Hæstarétti sem að margra áliti var tímamótadómur. „Ung kona slasaðist og átti samkvæmt gildandi rétti fram að þessu rétt á að fá 75% af tjóninu bætt miðað við karla. Hæstiréttur tók hins vegar algjörlega nýja stefnu og gjörbreytti fyrri afstöðu og sagði:

Þótt útreikningar sýni, að meðaltekjur kvenna hafi almennt verið lægri en karla, getur það ekki ráðið úrslitum, þegar til framtíðar er litið. Mismunun um áætlun framtíðartekna, þegar engar skýrar vísbendingar liggja fyrir um tjónþola sjálfan, verður ekki réttlætt með skírskotun til meðaltalsreikninga, en í 65. gr. stjórnarskrárinnar er boðið, að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og konur og karlar njóta jafns réttar í hvívetna, sbr. 3. gr. stjórnskipunarlaga nr. 97/1995. Ber því að hafa óskertar meðaltekjur iðnaðarmanna til hliðsjónar, þegar framtíðartjón áfrýjanda er metið.“

Ragnar sagði að í stað þess að hin slasaða fengi bætur sem miðuðu við að konur hefðu 25% lægri laun um eilífð, ekki bara tímabundið, þá voru henni dæmdar bætur án skerðingar vegna kyns. „Þannig eru unnt að bera fyrir sig stjórnarskrárákvæðið um jafnan rétt kvenna og karla í dómsmálum og fá viðurkenningu á efnislegum rétti. Þetta var mikilvægur áfangi,“ sagði Ragnar.

Hvað hefur löggjafinn gert?

Hann spurði: Hvaða ráðstafanir hefur löggjafinn gert í því skyni að að tryggja að markmið sérákvæðisins í 65. gr. kæmist í framkvæmd? „Ég ætla aðeins að nefna 15. gr. laganna um jafn stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, en þar segir meðal annars:

Við skipun í nefndir [...] á vegum ríkis [...] skal þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40%.

Með ákvæðinu var stigið skref í þá átt að auka þátttöku kvenna í samfélaginu til móts við karla til þess að framfylgja stjórnarskrárákvæðinu, sagði Ragnar.

Nokkru síðar voru sett lög nr. 45/2010 sem breyttu lögum um dómstóla með því að kveða á um skipun dómnefndar til að meta hver umsækjenda um dómaraembætti m.a. í Hæstarétti væri hæfastur.

„Í lögunum segir meðal annars:

Dómsmálaráðherra skipar fimm menn í dómnefnd til að fjalla um hæfni umsækjenda um embætti hæstaréttardómara [...]. Tveir nefndarmanna skulu tilnefndir af Hæstarétti,[...] Tilnefnir dómstólaráð þriðja nefndarmanninn en Lögmannafélag Íslands þann fjórða. Fimmti nefndarmaðurinn skal kosinn af Alþingi. [...] Dómnefnd skal láta dómsmálaráðherra í té skriflega og rökstudda umsögn um umsækjendur um embætti hæstaréttardómara. Í umsögn dómnefndar skal tekin afstaða til þess hvaða umsækjandi sé hæfastur til að hljóta embættið, en heimilt er að setja tvo eða fleiri umsækjendur jafna.   

Ég verð auðvitað að viðurkenna að hér stendur ekkert um fjölbreytni,“ sagði Ragnar. „Þetta er ekki góð löggjöf. Fjölbreytni í dómstólum er það málefni sem er ofarlega á baugi vítt og breitt um Evrópu, en þær umræður hafa lítt skilað sér hingað.“

Í undirbúningsgögnum um lög þessi benti Ragnar á að segði meðal annars:

Í öðrum lögum er einnig að finna ákvæði sem taka verður tillit til við skipun dómara, svo sem í [...] lögum um jafna stöðu og jafna rétt kvenna og karla nr. 10/2008.

Afstaða löggjafans lá fyrir

Ragnar sagði að með þessu hefði, þegar lögin um dómnefndina voru sett, því legið fyrir sú afstaða löggjafans að taka yrði tillit til ákvæða jafnréttislaganna við skipun dómara. Þá er meðal annars átt við skipun dómnefndarinnar skv. 15. gr. laganna, en einnig önnur ákvæði laganna. Ákvæði þeirra verður að sögn Ragnars að skýra í ljósi jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar og að því er virðist er engin leið að sniðganga fyrirmæli löggjafans.

„Jafnvel hinir snjöllustu lögmenn fyndu ekki þessa leið fyrir klíenta sína til að sniðganga lögin að þessu leyti.“ Ragnar sagði þvínæst að rétt væri huga að því á hvern hátt Hæstiréttur, sem tilnefnir tvo menn í dómnefndina, rökstyður þá afstöðu að hann sé ekki bundinn af jafnstöðulögunum.

„Þegar af þeirri ástæðu“

„Í bréfi réttarins til dómsmálaráðuneytisins hinn 24. júní 2010, eftir að Hæstiréttur hafði tilnefnt tvo karla sem aðalmenn og einn karl og eina konu sem varamenn, segir:

Eins og að framan er rakið er ráðherra bundinn af áliti dómnefndar, en unnt er að víkja frá því með samþykki Alþingis. Þegar af þeirri ástæðu telur Hæstiréttur ekki rétt að tilnefna fleiri til setu í nefndinni en skipa á samkvæmt tilnefningu réttarins.

„Þegar af þeirri ástæðu. Þetta er orðaleg sem við þekkjum úr dómum Hæstaréttar. Þetta er aðferð dómstóla til að komast hjá því að taka á vandanum,“ sagði Ragnar og uppskar hlátrasköll úr salnum.

Ráðuneytið var að sögn Ragnars ekki sátt við þetta svar og því ritaði rétturinn ráðuneytinu bréf öðru sinni hinn 13. júlí 2010 og útskýrði fyrra svar sitt. Þar segir:

Í þessu svari felst það álít að þar sem ráðherra er bundinn af áliti dómnefndarinnar víki ákvæði 1. mgr. 4. gr. a laga um dómstóla nr. 15/1998,  sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr.45/2010 um breytingu á þeim lögum ákvæðum 1. mgr. 15. gr. laga nr. 10/2008 til hliðar.

„Ég veit ekki hvort ég myndi hafa mikinn framgang með slíkri lögfræði og slíkum málflutningi fyrir dómstólum, til dæmis hjá Skúla,“ sagði Ragnar og benti með höfðinu til Skúla Magnússonar, annars framsögumanns á fundinum og dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur. Skúli brosti og kinkaði sposkur kolli.

Rétturinn undanþeginn lagafyrirmælum?

„Afstaða Hæstaréttar virðist því vera sú að rétturinn sé undanþeginn lagfyrirmælum um að þess sé gætt að hlutfall kynjanna í nefndum sé sem jafnast,“ sagði Ragnar. „Áherslan liggur í því að ráðherrann sé bundinn af áliti dómnefndarinnar, sem er að vísu ekki alveg rétt því hann getur gert tillögu til Alþingis um annan umsækjanda og ræðst þá valið af afstöðu þingsins,“ sagði hann.

„Hæstiréttur lítur með öllu fram hjá því að óhjákvæmileg er að túlka fyrirmælin í 15. gr. jafnréttislaganna í ljósi fyrirmæla 65. gr. stjórnarskrárinnar um jafnan rétt kvenna og karla. Hann lítur og fram hjá þeim vilja Alþings að tekið skuli tillit til ákvæða jafnstöðulaganna við val á dómurum og þar með við undirbúning á því vali,“ sagði Ragnar, „til dæmis við tilnefninguna.“

„Það sem ennfremur veikir niðurstöðu Hæstaréttar er að hann á þess kost að velja konu og karl sem aðalmenn í dómnefndina og það blasir við samkvæmt framansögðu að honum er  skylt að gera það,“ sagði Ragnar.

Hæstarétti hefur því að hans mati ekki tekist að rökstyðja lögfræðilega að hann sé undaþeginn lagafyrirmælum sem eiga sér beinan stuðning í stjórnarskrá og er ætlað koma fyrirmælum stjórnarskrárinnar um jafnan rétt í framkvæmd.

„Skyldi Hæstiréttur vera að gæta hagsmuna Hæstaréttar með því að vinna gegn markmiðum 65. gr. stjórnarskrárinnar og 15. gr. jafnstöðulaganna með því að tilnefna ekki konu eða konur sem aðalmenn í dómnefndina?“ spurði Ragnar hvass.

Allt karlar á aldrinum 50 til 65 ára

„Fimm af núverandi karldómurum Hæstaréttar eru á aldrinum 61-65 ára og hinir þrír eru  á aldrinum 50-54 ára. Því er líklegt að hinir fimm fyrstnefndu hafi allir verið í lagdeild þessa skóla, Háskóla Íslands á sama tíma og lesið sömu bækur og hlustað á sömu prófessorana á mótunarárunum. Sama gildir um hina þrjá síðarnefndu. Það sem einkennir dómarana í Hæstarétti er fábreytni og fábreytnin dregur úr getu og færni hans,“ sagði Ragnar.

„Þá loksins eru við komin að kjarna málsins,“ sagði hann, en það er fjölbreytni í dómstólum. „Ég hef löngum sagt að fjölskipaðir dómstólar eigi að spegla það samfélag sem þeir starfa í. Með því á ég við að bakgrunnur dómaranna sé sem breytilegastur þannig að líklegt sé að þeir eða einhver þeirra hafi nægan skilning á þeim margvíslegu vandamálum sem aðilar dómsmála eiga við að etja  og leita úrlausnar um hjá dómstólum,“ sagði Ragnar.

„Hér á ég við færni til að skilja og fást við úrlausnarefni á sanngjarnan hátt. Dómari þarf að vera meðvitaður um fjölbreytileikann í samfélaginu og hafa innsýn inn í aðstæður þeirra sem þurfa að sæta úrlausnum dómstóla,“ sagði hann.

Rétturinn verður líka að sjást

„Eitt af þeim skrefum sem við verðum að taka er að tryggja að æðsti dómstóll landsins sé skipaður konum jafnt sem körlum til að auka fjölbreytni innan dómsins og gera hann færari um að gegna mikilvægu hlutverki sínu.  Þannig byggjum við upp traust á dómstólnum, en fátt er dómstólum brýnna en traust almennings,“ sagði Ragnar.

Hann vísaði að lokum í dómarann lafði Mary Arden sem sagði:

People may well have more confidence that their concerns have been taken into account if the judiciary reflecs more of a cross-section of society. Í lauslegri þýðingu útleggst það: Fólk getur haft meiri trú á því að röksemdir þeirra hafi verið teknar til greina eftir því sem dómararnir hafa fjölbreytilegri bakgrunn.

„Vegna þess að dómnefndin var ekki skipuð lögum samkvæmt, og ég verð að minna á: „Justice must not only be done but also be seen to be done,“ [Það þarf ekki einungis að framfylgja réttinum heldur þarf einnig að sjást að honum er framfylgt] þá á ráðherra þess nú kost að auka fjölbreytnina í Hæstarétti og gera hann að betri dómstóli og breyta síðan lögunum og setja skilyrði um fjölbreytni sem einn af mælikvörðunum við val á dómurum,“ sagði Ragnar.

„Ef það tíðkaðist á svona virðulegum fundum að maður hrópaði slagorð,“ sagði Ragnar og uppskar hlátur áheyrenda, „þá myndi ég hrópa: Fjölbreytni í dómstólum!“

Ragnar Aðalsteinsson.
Ragnar Aðalsteinsson.
Fundurinn var þétt setinn.
Fundurinn var þétt setinn. mbl.is/Styrmir Kári
Kristrún Elsa Harðardóttir og Skúli Magnússon héldu einnig erindi á …
Kristrún Elsa Harðardóttir og Skúli Magnússon héldu einnig erindi á fundinum. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert