Hófu skyndilega að hnoða dúkkur

Gestir Kringlunnar vissu ekki hvaðan af sig stæði veðrið á fimmta tímanum í dag þegar um 30 manns birtust skyndilega og fóru að hnoða hjartahnoðsdúkkur í takt við lagið Staying Alive með hljómsveitinni Bee Gees. Þátttakendur klæddust bolum sem á stóð „Hendur bjarga lífi“ en uppákoman var skipulögð af Endurlífgunarráði Íslands.

Þeir sem sáu um að hnoða dúkkurnar eru slökkviliðsmenn/sjúkraflutningamenn frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, lögreglumenn, hjúkrunarfræðingar frá Landspítalanum og læknanemar. Lögð var áhersla á að allir gætu beitt hjartahnoði og fyrir vikið voru þátttakendur í borgaralegum klæðnaði ef svo má að orði komast og ekki í hefðbundnum vinnufatnaði.

Þegar lagið var búið eftir nokkrar mínútur stóðu þátttakendurnir upp og hurfu á braut.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert